Bolungavík: útsýnispallurinn strax á næsta ári

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að í 160 milljón króna styrk framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til þess að byggja útsýnispall utan í Bolafjalli felist mikil viðurkenning á verkinu. Hugmyndin hafi, þrátt fyrir að vera mjög djörf, þótt vera raunhæf og því hafi verið ákveðið að setja mikið opinbert fé til þess að koma hugmyndinni til framkvæmda. Jón Páll bendir á að svipaðar hugmyndir hafi orðið að veruleika erlendis, svo sem í Noregi, og hafi þær skilað fjárhagslegum árangri og það hafi hjálpað til þess að vinna málinu stuðning.

Áður hafði fengist 27 milljóna króna styrkur til þess að hanna verkið og er því lokið. „Það er búið að grandskoða bergið, ákveða hvar eigi að festa bergbolta og hversu langir þeir eigi að vera og allar mögulegar athuganir hafa verið gerðar af sérfræðingum og framkvæmdir geta hafist“ segir Jón Páll Hreinsson. Meðal þeirra sme hafa komið að málinu eru Sei arkitektar, verkfræðistofan Efla og Landmótun. Nú er Bolungavíkurkaupstaður að vinna að gerð deiliskipulags fyrir svæðið og þegar það liggur fyrir er komið að einkaaðilum segir Jón Páll, sem vilja koma upp aðstöðu og þjónusta ferðamennina.

Útboð hefur þegar farið fram og nú er ekkert því til fyrirstöðu að gera samning við Eykt byggingarfélag þegar fjármögnun liggur fyrir.

Kostnaður er áætlaður um 200 milljónir króna og mun Bolungavíkurkaupstaður leggja til það sem upp á vantar. Jón Páll segir að pallurinn verði tilbúinn í síðasta lagi 2021 og þá mun koma fyrsta skemmtiferðaskipið til Bolungavíkur.

Það er enginn vafi, segir Jón Páll, að útsýnispallurinn mun draga ferðamenn til Vestfjarða og Bolungavíkur og jafnvel draga þá til Íslands í upphafi.