Bolungavík: 160 m.kr. í útsýnispall

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur veitt Bolungavíkurkaupstað 160 milljóna króna styrk til þess að  gera útsýnispall á toppi Bolafjalls við fjarðarminni Ísafjarðardjúps, ásamt frágangi á landi í nánasta umhverfi hans.

Útsýnispallurinn hangir utan í þverhníptum stórstuðluðum klettum með stórbrotið útsýni yfir Ísafjarðardjúp, inn jökulfirði og út yfir sjóndeildarhring í átt til Grænlands.

Bygging útsýnispallsins byggir á hönnun tillögu Sei Arkitekta, Landmótun og Argos sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um hönnunina.

Í umsögn sjóðsins segir að um mjög spennandi innviðauppbygging sé að ræða , sem stuðlar að bættu öryggi ferðamanna og skapar nýtt aðdráttarafl á veiku svæði.

Styrkurinn er veittur með fyrirvara um veitingu framkvæmdaleyfis.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2020. Samtals er nú úthlutað rúmum 1,5 milljarði króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

DEILA