Auknu fiskeldi fagnað

Frá fiskeldi á Reyðarfirði.

Bæjarráð Bolungavikur segir í samþykkt sinni frá síðustu viku að það lýsi yfir mikilli ánægju með niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar vegna endurskoðunar áhættumats erfðablöndunar vegna laxeldis í sjókvíum þar sem lagt er til að leyfa laxeldi í Isafjarðardjúpi.

„Niðurstaðan er að heimilt verður að ala 12.000 tonn af laxi í Ísafjarðardjúpi. Ljóst er að þessi ákvörðun mun hafa mikil jákvæð áhrif á samfélagið við Djúp á næstu árum og áratugum.
Bæjarráð skorar á stjórnvöld að leggja til nægilegt fjármagn og mannafla í þær stofnanir
sem sinna leyfisveitingum til fiskeldisfyrirtækja til að hægt sé að afgreiða leyfi án tafa.“

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga ályktaði einnig í síðustu viku um hið nýja áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun. Lögð er áhersla á mikil efnahagsleg áhrif af 20% auknum heimildum til fiskeldis sem komi glögglega fram á Vestfjörðum og Austfjörðum. Samtökin vilja að ríkið og stofnanir geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að jákvæðra áhrifa gæti sem fyrst sem leiði til fjölgunar atvinnutækifæra og aukinnar þjóðarframleiðslu.

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga eru samtök þeirra sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar, veiðar og vinnslu. Þau voru stofnuð 2012 og eru 24 sveitarfélög aðilar að samtökunum.

DEILA