Afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi flýtt

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í gær 15 aðgerðir á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs til að bregðast við áhrifum COVID-19 veirunnar á þessar greinar.

Meðal aðgerðanna er að flýta skal afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi og eftirlit og stjórnsýsla styrkt. Í skýringum segir að mikilvægt sé að flýta afgreiðslu leyfa til fiskeldis þar sem fiskeldi hafi vaxið mikið á undanförnum árum. Útflutningsverðmæti fiskeldis var 25 ma.kr. í fyrra eða sem nemur tæplega 2% af heildarútflutningi.

Samhliða miklum vexti greinarinnar undanfarin ár hefur málsmeðferð rekstrarleyfisveitinga vegna fiskeldis þyngst umtalsvert. Því er mikilvægt að flýta afgreiðslu leyfa til fiskeldis enda gæti það á þessu ári og til framtíðar haft í för með sér mikla fjárfestingu hér á landi og ráðningu á fleira starfsfólki.

Ákvörðunin snýr að Matvælastofnun, sem heyrir undir ráðherrann. En stofnunin gefur úr rekstrarleyfi í fiskeldi.

Afgreiðslutími umsókna um fiskeldi er mjög langur á Íslandi og er talinn í árum. Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar  bókaði nýlega undrun sína á því að vera beðin um umsögn um sex ára gamla umsókn um eldi í Ísafjarðardjúpi. Gunnar Davíðsson, deildarstjóri hjá Tromsfylki í Noregi sagði í fyrirlestri sem hann hélt á Ísafirði í fyrra að krafist væri þess að afgreiðslu umsókna væri lokið innan 22 vikna frá því að þær eru lagðar fram og rauntölur væru nálægt því.

DEILA