Vesturbyggð: hafa áhyggjur af stöðu hafnarinnar vegna ofanflóðagarða

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að bæjaryfirvöld hafi rætt við ofanflóðasjóð og hönnuði þeirra varnargarða sem verða reistir við Mýrar, Urðir og Hóla á Patreksfirði og lýst áhyggjum sínum af stöðu hafnarinnar.

Bæjarins besta spurðist fyrir um stöðu smábátahafnarinnar þegar ofanflóð verður sbr. myndina af görðunum við Mýrar, Hóla og Urðir og hvort garðarnir beindu flóði  beint í farveg sem endar í höfninni líkt og gerðist á Flateyri.

 

Hún segir að eins og sjá megi á uppdrætti af ofanflóðavörnunum mun vestari hluti hafnarinnar verða betur varinn fyrir ofanflóðum eftir að varnarmannvirkin rísa.

„Verið er að skoða hvort unnt sé að gera einhverjar ráðstafanir til að draga úr líkum á tjóni komi ofanflóð niður í höfnina en hafa ber þó í huga að þetta er farvegurinn sem flóð á þessu svæði kemur niður, enda er þar engin byggð í dag og ólíklegt er að flóð á þessu svæði nái eins miklum hraða og talið er að hafi verið á flóðinu á Flateyri.“

 

DEILA