Vesturbyggð: fer í leyfi frá bæjarstjórn

María Ósk Óskarsdóttir varaforseti bæjarstjórnar  hyggst taka sér leyfi frá störfum í bæjarstjórn Vesturbyggðar í framhaldi af boðaðri stjórnsýslukæru til ráðuneytis.

Fréttablaðið skýrði frá því á föstudaginn að tveir starfsmenn hjá Grunnskóla Patreksfjarðar hefðu sagt upp störfum vegna eineltis. Lögmaður annars þeirra segir að kennarinn hyggist leita réttar síns gagnvart Vesturbyggð.

María Ósk Óskarsdóttir segir í samtali við Bæjarins besta að tekið hafi verið á málinu innan skólans og þar hafi niðurstaða fengist síðastliðið vor. Málinu sé í raun lokið.  Hún haldi áfram störfum sem kennari við skólann. Hinn kennarinn ákvað að hætta. María Ósk segist taka sér tímabundið leyfi frá störfum í bæjarstjórn svo umræður og deilur um málið komi ekki til með að trufla störf bæjarstjórnar meðan stjórnsýslukæran er til meðferðar, komi hún fram.

Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um málið.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!