Vestfirðir: gistinóttum erlendra ferðamanna fjölgaði 2019

Hótel Horn Ísafirði.

Gistinóttum erlendra ferðamanna fjölgaði á síðasta ári á Vestfjörðum um 2,9% þrátt fyrir 14% samdrátt í fjöldanum sem kom til landsins. Þetta kemur fram í Hagsjá sem Hagfræðideild Landsbankans gefur út.

Í heild fækkaði gistinóttunum um 3,3% sem er mun minna en nemur fækkun ferðamannanna. Skýringin er sú að hver ferðamaður dvaldi lengur á landinu en áður. Segir í Hagsjánni að kannanir hafi sýnt að dvalarlengd þeirra ferðamanna sem komu með WOW air væri almennt styttri en ferðamanna sem komu með öðrum flugfélögum. „Þessar tölur styðja niðurstöður þeirra kannana. Brotthvarf WOW air hafði því ekki eins mikil áhrif á gistigeirann og ætla hefði mátt í fyrstu.“

Töluverð breyting varð á Airbnb gistingu.

Langmesta fækkunin hlutfallslega séð var á Suðvesturhorninu. Þannig fækkaði gistinóttum um 18,6% á höfuðborgarsvæðinu en öllu meira, eða 23%, á Suðurnesjum. Fækkun mældist 2,9% á Suðurlandi og 0,7% á Norðurlandi eystra.

Á öðrum svæðum fjölgaði gistinóttum í Airbnb. Fjölgunin var mest á Austurlandi, 8,5% en næstmest á Vesturlandi, 6,2% og þriðja mest á Norðurlandi vestra. Á þeim svæðum þar sem fjölgun mældist var hún minnst á Vestfjörðum eða 2,9%.

Á höfuðborgarsvæðinu varð fækkun bæði í hótelgistingu og í Airbnb, en á öðrum svæðu varð ýmist. Á Vestfjörðum fækkaði gistinóttum á hótelum lítilsháttar en fjölgunin í Airbnb varð meiri og því aukning í samanlögðu á árinu 2019.

DEILA