Það gustar víða

Það hefur oft verið bjartara yfir föstudögum en nú. Óveður geisar um allt land en líka á vettvangi vinnumarkaðarins. Enn hótar ISAL að loka álverinu í Straumsvík ef raforkuverð verður ekki lækkað og enn er ekki hægt að klára kjarasamninga starfsfólks vegna stöðunnar. Það er óþolandi að setja starfsfólk trekk í trekk í þá stöðu að vera óvisst um framtíð sína og afkomu. Staða fyrirtækisins og framtíð skiptir máli fyrir fjölda manns og það er líka fjöldi manns sem þarf að taka þátt í samráði um framtíðina, ekki síst fulltrúar starfsfólks. Ég tek heilshugar undir þessar kröfur sem samþykktar voru í Evrópusamráði starfsfólks Rio Tinto í vikunni vegna stöðunnar hjá ISAL og ALUCHEMIE í Hollandi:

„Að fulltrúanefnd allra framleiðslustaða í Evrópu fái afhentar upplýsingar og verði höfð með í ráðum um endurskoðun á rekstri ÍSAL og ALUCHEMIE.

Að öllum starfsmönnum ALUCHEMIE og ÍSAL verði gefinn kostur á sálfræðiaðstoð vegna þeirrar óvissu sem ríkir um störf þeirra, auk þess sem bráðnauðsynlegt er að allir starfsmenn fái reglulega upplýsingar um hvað bíður þeirra.“

Vikan veitti heldur ekki tilefni til aukinnar bjartsýni um lausn kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar. Þó miðaði áfram í samkomulagsátt um breytingar á vaktavinnu sem er eitt af þeim púslum sem þarf til að liðka fyrir þeim samningum sem enn eru eftir á opinbera vinnumarkaðnum.

Farið varlega í baráttunni við náttúruöflin og ég hvet starfsfólk til að kynna sér réttindi sín ef veður hamlar vinnu. Upplýsingar eru aðgengilegar á heimasíðu ASÍ.

Góða helgi,
Drífa Snædal

forseti ASÍ

DEILA