Þ-H leið: 29 skilyrði í framkvæmdaleyfinu

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti framkvæmdaleyfi til Vegagerðarinnar fyrir Þ-H leiðinni með 29 skilyrðum sem verða sett inn í leyfið. þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnarinnar.

Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni hafði ekki séð skilyrðin og sagðist ekki vita hver þau eru þegar Bæjarins besta hafði samband við hann í gærkvöldi.

Sveitarstjóra í samráði við sveitarstjórn var falið að semja um framkvæmdaleyfisgjald      og gera samning við Vegagerðina um eftirlit Reykhólahrepps með framkvæmdum í         samræmi við framkvæmdaleyfi og reglugerð um framkvæmdaleyfi.

„Þegar  samkomulag liggur fyrir skal sveitarstjóri gefa út framkvæmdaleyfið og auglýsa í      samræmi við 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.“ segir í afgreiðslunni.

Ingimar Ingimarsson lagðist gegn afgreiðslu málsins og lagði fram bókun. Vísar hann til fyrri afstöðu sinnar og skýrslu Viaplan. Þá segir hann að ekki hafi verið sýnd fram á brýna nauðsyn þess að raska Teigskógi. Þá segir í bókuninni að ekki hafi heldur verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að fara þesssa leið umfram aðrar leiðir til þess að ná því fram að losna við fjallvegi. Vegagerðin hafi í 17 ár haldið fram þesari leið og „Það eru því afar léttvæg og jafnvel hlægileg rök að bera fyrir sig brýna nauðsyn vegna þess að Teigskógsleið taki styttri  tíma en aðrar leiðir.“