Súðavík: samgöngur ekki ásættanlegar

Kæra fólk, nær og fjær.

 

Febrúar er nú vel farinn af stað og enn bætist í þá klukkutíma sem Súðavíkurhlíðin er lokuð vegna snjóflóða og snjóflóðahættu. Í dag, 10. febrúar er hlíðin lokuð og hefur verið frá því í morgun samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

 

Enn kemur í ljós hversu þetta kemur niður á byggð hér, þessi samgöngutálmi sem Súðvíkurhlíðin er þegar vetur er snjóþungur eða illviðrasamur. Sjúklingur var fluttur sjóleiðina frá Súðavík til Ísafjarðarbæjar eftir hádegið í dag, enda fátt annað í boði um heilbrigðis- eða læknisþjónustu Súðavíkurmegin. Það er ekki spennandi kostur, ofan í erfið veikindi, að þurfa að fara hér á milli í björgunarskipi, enda bætist ofan á veikindi fyrir flest fólk að þurfa að fara í vondu sjólagi þó ferðin sé til þess að gera stutt.

 

Hér er okkar innlegg í umræðu um innviði og samgöngumál frá Súðavík. Hér eru ekki heimtufrekar raddir um það að fá einhver sérstök þægindi eða tímasparnað af samgönum. Ekki að stytta vegalengdir eða tvöfalda vegi, ekki brúa firði eða leggja slitlag. Heldur aðallega að eiga þess kost að geta nýtt grunnþjónustu og heilbrigðisþjónustu sem enn hefur verið skammtað naumt frá því ríkið fór fyrir alvöru að draga úr slíkri þjónustu á landsbyggð.

 

Ríflega 25 árum eftir mannskæð snjóflóð í Súðavík koma þingmenn og ráðherrar að vitja þorpsins og fá um það vitneskju um það hvernig fólki í Súðavík og hreppnum öllum hefur reitt af eftir flóðin. Nú er sá tími ársins hjá þeim og fara þeir um landið og reyna að finna taktinn með heimamönnum, fá að vita um það sem miður fer og um það sem vel gengur. Það er alltaf gaman að ræða slíka hluti, hvort heldur er til umvöndunar eða upplýsingar. Þá voru og sjálfstæðismenn hér fjölmennir sl. föstudag að vísitera um landið. Það fór vel á með heimamönnum í Súðavík, en ljóst er að þingmenn og ráðherrar fóru vel nestaðir með fróðleik um alvöru lífs hér vestur á fjörðum. Hvað það þýðir að reyna að stunda atvinnu, lifa lífinu og eiga von um að geta stundað brauðstritið óáreittur eitthvað lengur.

 

En hvað fengu þeir að vita um staðinn og stöðu hans þegar 25 ár eru liðin frá hamförum og janúar 2020 minnti hressilega á atburðina?

 

Jú, staðan er slík að hér í Súðavík er u.þ.b. eitt kg. í varanlegum aflaheimildum í makríl og því vart til skiptana fyrir stóra eða smáa útgerð. Ýmis fyrirtæki hafa tekið þátt í því með sinni hagræðingu og samdrætti að ljúka að mestu útgerðar- og fiskvinnslusögu Súðavíkur, hver með sinni aðkomu og gerðum. Samgöngur eru mikils til hinar sömu í áttina til Skutulsfjarðar og fyrir 25 árum og innilokun jafn erfið yfir vetrarmánuðina ef því er að skipta. Rafmagnið er hið sama og aðföng þess, en varaafl hefur þó komið sterkt inn í vetur og vart hægt að tala um neina truflun sem heitið getur fram til þesa. Varðandi uppbyggingu atvinnulífs er það að frétta að við ýmis öfl er að eiga þegar kemur að því að reyna að koma einhverju til framkvæmda, hvort heldur er að virkja bæjarlækina eða hefja vinnslu hráefnis.

 

Þá hafa flest áforma og vona verið slegin út af borðinu í raun með þingsályktun um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga – Súðavíkurhreppur er ekki nógu stór til að fá að vera í samfélagi annarra stjórnsýslueininga af svipuðu sauðahúsi.  Og þessa sömu hluti munum við ræða við Framsóknarmenn sem hingað mæta í vikunni og kannski eitthvað fleira.

 

Það er sorglegt að horfa upp á hversu lítið hefur þokað með þá hugmynd að opna varanlega á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar, bæði í eiginlegri merkingu og óeiginlegri. Það myndi gera stóra hluti að fá bættar samgöngur fyrir þennan stærsta byggðakjarna Vestfjarða að eiga enn tryggari og greiðari samgöngur með því að opna hér í milli. Talsverður kostnaður í upphafi en fjárfesting til framtíðar án nokkurs efa, samgöngubót og bæting lífsgæða fyrir þá sem búa hér á svæðin og þá sem okkur sækja heim.

 

Hér í Súðavík býr öflugt fólk sem hefur aðlagast þessum aðstæðum enda fádæma gott að búa hér og sóknarfæri í öllu ástandi ef vel er á haldið. Þetta vita miklu fleiri en búa í hreppnum, enda ýmislegt sem truflar fólk í því að geta gert það á heilsársgrundvelli. Atvinna er með öðru móti en hér var lengst af og byggir á annarri aðkomu að sjósókn. Einhverjir sækja atvinnu í nágrannabyggð og aðrir hafa búið til önnur tækifæri til að afla sér viðurværis og þorpinu til viðgangs. En þrátt fyrir að hér séu flestir sjálfum sér nógir með flesta hluti þá er enginn eyland. Og það þarf í sífellt flóknara umhverfi að tryggja með einum eða öðrum hætti að lífsgæði séu ásættanleg og helst eftirsóknarverð á staðnum – gera staðinn samkeppnisfæran ef svo má segja. Margt er hér vel gert og til eftirbreytni og samfélag sem ætti að laða að fleira fólk og eflast fremur en hnigna.

 

En við þurfum hjálp og aðstoð við samgöngumálin, enda eru þau í höndum annarra en Súðavíkurhrepps. Og þau varða fleri en okkur sem hér búum. Þetta er sameiginlegt átaksverkefni sem er, eftir því sem ég best fæ séð, nokkuð samtóna áhersla á hér á norðanverðum Vestfjörðum. Göng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar eru að verða meira áberandi krafa og er skammt að minnast ályktana frá Fjórðungsambandi Vestfjarða og máli sem borið var upp á alþingi fyrir skemmstu.

 

Fyrir okkur í Súðavík er ekki gott að eiga þann kost einan að sigla sjúklingum og slösuðum á milli í endurteknum lokunum Súðavíkurhlíðar. Fyrir Bolvíkinga og stór-Ísafjarðarsvæðið er ekki ásættanlegt að samgöngur lamist ítrekað vegna lokunar á hlíðinni, enda örðugt að treysta á hlýnun jarðar í því tilliti að leysa samgöngumál. Og nóg er um aðra farartálma og ljón í veginum. Ég myndi, frekar en að veðja á að bíða eftir því að snjór heyri sögunni til að vetri, reyna að breyta samgönguáætlun sem nýverið var samþykkt á alþingi og koma þar inn gangnagerð. Þil og úrbætur á rásinni meðfram veginum um Súðavíkurhlíð eru þarfaþing en verða aldrei nema tímabundin lausn með lokun, enda 22 þekktir farvegir snjóflóða, klaka og grjóts á veginn með tilheyrandi hætum á mann- og eignatjóni.

 

Þetta er ekki ásættanleg staða til lengdar og hamlar án efa eflingu allrar byggðar við Djúp.

 

Með kærri kveðju frá Súðavík.

Bragi Þór Thoroddsen – sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

DEILA