Stofnandi IWF leigir Langadalsá

Eigendur að félaginu Starir ehf. Mynd: Starir.is

Ingólfur Ásgeirsson, annar stofnandi The Icelandic Wildlife Fund er leigutaki Langadals- og Hvannadalsár í gegnum fyrirtækið Starir ehf þar sem Ingólfur er þriðjungshluthafi. Aðrir hluthafar eru Davíð Másson og Halldór Hafsteinsson í gegnum net eignarhaldsfélaga.

Þann 18. febrúar 2019 tilkynntu Veiðifélag Langadalsár og Veiðifélag Hvannadalsár að ákveðið hefði verið daginn áður eftir félagsfund veiðifélagana að ganga til samninga við Starir um leigu á ánum til næstu 2ja ára.

Árið 2017 upplýsti Þorleifur Pálsson þáverandi formaður Veiðifélagsins í svari fyrir fyrirspurn frá blaðinu Vestfirði að tekjur veiðifélagsins hefðu verið 10,5 milljónir króna árið áður. Ekki hafa fengist upplýsingar um tekjur veiðifélagsins af leigu laxveiðiréttinda til Stara ehf.

Ingólfur Ásgeirsson skrifaði grein í byrjun ársins þar sem gagnrýnd eru harðlega áform um laxeldi í Djúpinu. Í kjölfarið hafa stjórnarmenn og ritstjóri IWF birt greinar með sama boðskap.

Starir ehf er félag sem tekur laxveiðiár á leigu og selur veiðileyfi og þjónustu tengda því. Meðal þeirra eru Kjarrá og Þverá í Borgarfirði, Langadalsá og Hvannadalsá í Djúpinu og kemur auk þess að leigu á Víðidalsá, Blöndu, Svartá og Laxá í Aðaldal og ef til vill fleiri ám.

Samkvæmt ársreikningi fyrir 2018 voru tekjur Stara ehf 334 milljónir króna. Stærsti útgjaldaliðurinn er leiga á ám og var hann 186 milljónir króna. Vitað er að árlegar greiðslur vegna Kjarrár og Þverár eru um 112 milljónir króna auk annars kostnaðar við leiguna. Hagnaður varð 8 milljónir króna. Næsthæsti útgjaldaliðurinn er kostnaðarverð seldrar vöru 77 milljónir króna. Eignir eru metar á 200 milljónir króna og skuldir eru 192 milljónir króna.

DEILA