Sjómannakröfur: lífeyrismál og verðmyndun á fiski stóru málin

Bergvin Eyþórsson á síðasta ASÍ þingi ásamt Hrund Karlsdóttur, formanni VLSB og Finnboga Sveinbjörnssyni, formanni VerkVest. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sjómannasamband Íslands hefur lagt fram kröfur sínar um kjarabætur. Það eru samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sem er viðsemjandinn, en þau samtök tóku við af LÍÚ.

Bergvin Eyþórsson, varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir að það séu lífeyrismálin og verðmyndun á fiski sem séu heitustu atriðin. þegar framlagt atvinnurekenda var hækkað í 11,5% af launum úr 8% þann 1 júlí 2018 urðu sjómenn eftir og hafa ekki fengið þá hækkun ennþá.

Annað mál sem Bergvin nefnir eru verðlagsmálin. „Við viljum að verðmyndun á fiski fari fram á sanngjarnan hátt“ segir Bergvin og bendir á að athugun á fiskverði erlendis sýni að það  sé hærra  þar. Þá feli krafa sjómanna í sér að þátttöku sjómanna í olíukostnaði  útgerðarinnar verði hætt.

Bergvin var inntur eftir nýsmíðaálaginu og hvers vegna ekki væri gerð krafa um afnám þess. Hann segir að um það hafi verið samið síðast að það félli niður 14 árum eftir þá samninga, yrði óbreytt í 7 ár og lækkaði svo ár frá ári næstu 7 ár þar til það félli niður. Það eru liðin þrjú ár frá þeim samningum og því enn eftir 11 ár. „Við viljum ekki taka nýsmíðaálagið upp heldur láta það renna út“ segir Bergvin.

Útvegsmenn hafa afhent sínar gagnkröfur og Bergvin segir að framundan sé  fyrsti samningafundurinn.

Kröfur sjómanna eru í 15 liðum og eru eftirfarandi:

  1. Kauptrygging og aðrir kaupliðir hækki.
  2. Fiskverð verði endurskoðað. Ákvörðun á verði upsjávarafla sett í eðlilegt horf.
  3. Útgerðin greiði 3,5% mótframlag í lífeyrissjóð.
  4. Útgerðin greiði 0,3% í Sjómennt.
  5. Útflutningur í gámum. Vinna skipverja við ísun ekki leyfileg þegar aflinn hefur þegar veið seldur erlendum aðila.
  6. Slysavarnarskóli sjómanna. Nánar verði skilgreint hvaða kostnað útgerð á að bera varðandi uppihald og ferðir.
  7. Ráðningarsamningar og lausráðningar. Þessum málum komið í betra horf.
  8. Frí um Jól, áramót og sjómannadag verði aukin.
  9. Trúnaðarmaður skipverja við uppgjör geti verið utanaðkomandi aðili að vali skipverja og stéttarfélags.
  10. Vinna matsveina á uppsjávarskipum verði römmuð inn með tilliti til hvíldartíma og í höfn utan heimahafnar.
  11. Laun aðstoðarmanns matsveins á frystiskipum hækki verulega.
  12. Ávinnsla orlofs verði samræmd við almenna markaðinn.
  13. Vinnslustjórar og matsmenn á frystiskipum fái 1/8 aukahlut í stað fastrar krónutölu.
  14. Bætur frá útgerð vegna afnáms sjómannaafsláttar.
  15. Skipverjar hafi frí við löndun á öllum veiðum, þar með talið á dagróðrum.

 

DEILA