Vestfirðir: Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi – Píratar í þriðja sæti

Sjálfstæðisflokkurinn fengi mest fylgi á Vestfjörðum samkvæmt könnun Gallup, sem framkvæmd var í Norðvesturkjördæmi frá  28. október 2019 – 2. febrúar 2020. Niðurstöður könnunarinnar hafa verið greindar eftir svæðum og á Vestfjörðum reynist Sjálfstæðisflokkurinn vera með mest fylgi og fengi hann 22% atkvæða.

Á eftir Sjálfstæðisflokknum koma fjórar flokkar með svipað fylgi.

Miðflokkurinn er með næstmest fylgi eða 16%. Píratar fengju samkvæmt könnuninni 14% atkvæða á Vestfjörðum. Vinstri grænir mælast með 13% og Framsóknarflokkurinn 12%.

Samfylkingin mælist með 8%, Sósíalistaflokkurinn fengi 6% og Viðreisn og Flokkur fólksins fengju 5% hvor.

Fylgi Pírata og Sósíalistaflokksins er hvergi í Norðvesturkjördæmi meira en á Vestfjörðum og fylgi Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi er minnst á Vestfjörðum.

Fylgið í kjördæminu í heild mælist þannig að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 22%, Miðflokkurinn 20%, Framsóknarflokkurinn 15%, Vinstri grænir 11%, Píratar 10%, Samfylking 9%, Viðreisn 5%, Flokkur fólksins 4% og Sósíalistaflokkurinn 3%.

Væru Vestfirðir enn sér kjördæmi eins og var fram til 2003 með 5 þingsæti myndi eitt þingsæti falla í hlut hvers flokks, Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins, Pírata og  Vinstri grænna. En sem fyrr er ómögulegt að segja til um hver hreppti jöfnunarþingsætið.

Í úrtaki fyrir kjördæmið í heild voru 2501 af þeim svöruðu 1.317. Þar af ætluðu 963 ( 73%) að kjósa einhvern flokk, en 27% ætla ekki að kjósa, skila auðu, tóku ekki afstöðu eða neita að svara.  Um helmingur svaranna var á Vesturlandi, um 20% á Vestfjörðum og um 30% á Norðurlandi (Húnavatnssýslur og Skagafjörður).

DEILA