Samtök atvinnurekenda stofnuð á Ísafirði

Samtök atvinnurekenda á norðanverðum Vestfjörðum voru stofnuð fimmtudaginn 13. febrúar í sal Þróunarseturs Vestfjarða.  Samtökin eru ópólitísk og tilgangurinn er að gæta hagsmuna rekstraraðila á starfssvæði sínu og vera vettvangur fyrir umræður, tengslanet og nýsköpun.

Í tilkynningu frá Vestfjarðastofu segir að þarna skapist góður vettvangur til að efla tengsl atvinnurekenda á svæðinu og beita sér fyrir hagsmunamálum, efla umræður, fræðslu og aðgerðir í atvinnumálum innan svæðisins.

Ákveðið var á fundinum að þeir sem vilja gerast stofnfélagar samtakanna en komust ekki á fundinn geti farið á skrifstofu Vestfjarðastofu í Vestrahúsinu á Ísafirði og skráð sig í félagið fram til 29. febrúar 2020.

„Vestfirðir eru spennandi svæði en grunnforsemdan fyrir tilveru okkar hér er gott atvinnulíf og til að auka samstöðuna voru stofnuð samtök atvinnurekenda á Reykhólum og Ströndum sem hafa fengið nafnið KRÁS (Kaldrananes, Reykhólar, Árneshreppur og Strandir) þann 5. nóvember 2019.  Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum voru svo endurvakin 26. nóvember 2019.

Starfsemi er því komin í gang hjá samtökum atvinnurekenda á öllum svæðum Vestfjarða og markmiðið er að einu sinni á ári komi öll félögin saman og ræði sam-vestfirsk mál.“

Kynnt var á fundinum að Vestfjarðastofa er að hefja kynningu á fyrirtækjum og sveitarfélögum á Vestfjörðum sem verður unnið í samráði við samtök atvinnurekenda.  Á fundunum sem haldnir hafa verið hefur komið fram mikil þörf á betri kynningu á fyrirtækjunum á svæðunum bæði innan sem utan Vestfjarða því þegar samgöngur batna er mikið sóknarfæri í að kaupa þjónustu hvaðan sem er á Vestfjörðum.

Á fundinum voru eftirtaldir valdir í stjórn félagsins: Shiran Þórisson, Artic Fish; Björn Davíðsson, Snerpu; Aðalsteinn Egill Traustason, IWS; Gunnar Sæmundsson, Engjavegi; Sæbjörg Freyja Gísladóttir, Kalksalti og í varastjórn:  Marínó Hákonarson, Ísblikki; Steinþór Bragason, Vélsmiðju Ísafjarðar og Gunnhildur Gestsdóttir, Dokkunni.