Sameining sveitarfélaga: engir peningar

Ekki er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til þess að mæta kostnaði við sameiningar sveitarfélaga sem fyrir dyrum stendur eftir að Alþingi samþykkti þingsályktun þar um. Þetta kemur fram í drögum að frumvarpi sem sett hefur verið til kynningar á samráðsgátt stjórnvalda.

Heldur dregið í land

Meginefni frumvarpsins er að lögfesta lágmarksíbúafjölda í sveitarfélaga og er miðað við 1000 manns. Heldur er dregið í land frá fyrri yfirlýsingum. Ekki verður sveitarfélagi skylt að sameinast öðru fyrr en tveimur árum síðar en áður hafði verið boðað. Sveitarfélag með færri en 250 íbúa 2022 og færri en 1000 íbúa 2026 verður ekki skylt að sameinast fyrr en 2024 og 2028.

Þá koma inn tvö ný ákvæði. Það fyrra mælir fyrir um að forsenda sameiningarkvaðar sé að sveitarfélag hafi verið undir íbúamörkum í þrjú ár samfleytt og í því seinna fær ráðherra heimild til þess að veita undanþágu til fjögurra ára frá íbúalágamrki ef sérstakar ástæður mæla gegn því að sveitarfélag geti myndað stjórnsýslulega heild með nærliggjandi sveitarfélögum.

Sveitarfélögin greiða sjálf kostnaðinn

Í sérstöku ákvæði er mælt fyrir um að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði heimilt að halda eftir allt að 1.000 millj. kr. af tekjum sjóðsins á hverju ári á tímabilinu 2020–2035  til að mæta greiðslu á sérstökum framlögum úr sjóðnum sem koma til vegna sameiningar sveitarfélaga.  Með öðrum orðum þá er gert ráð fyrir allt að 15 milljörðum króna til þess að greiða fyrir sameiningunni en þeim kostnaði verður mætt með því að skerða önnur framlög sjóðsins til sveitarfélaga um sömu fjárhæð.

DEILA