Reykhólar: oddvitinn sagði af sér

Ingimar Ingmarsson, sem kosinn var oddviti Reykhólahrepps eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar lét af embætti að eigin ósk á fundi sveitarstjórnarinnar á þriðjudaginn.

Árný Huld Haraldsdóttir var kosinn nýr oddviti og Ingimar Ingimarsson tók svo við af henni sem varaoddviti.

Í yfirlýsingu Ingmars segir að honum sé ekki lengur sætt sem oddviti þar sem hann sé ekki sammála meirihluta sveitarstjórnar um Þ-H leiðina og því sé eðlilegt að kjósa nýjan oddvita.

 

Yfirlýsing Ingimars Ingimarssonar fráfarandi oddvita í heild:

„Það var á vordögum 2018 þar sem ég bauð mig fram til setu í sveitarstjórn             Reykhólahrepps. Eftir glæsilega kosningu tæpra 86% kjósenda tók undirritaður sæti í      sveitarstjórn. Á fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar var ég kosinn oddviti            sveitarfélagsins með öllum greiddum atkvæðum. Þessi stuðningur hefur verið mér          ómetanlegur í störfum mínum sem sveitarstjórnarmaður og oddviti.

Mörg mál hafa legið fyrir og verið afgreidd á þessum tæpu tveimur árum sem ég hef setið sem oddviti sveitarstjórnar. Byggðar voru þrjár íbúðir, bætt voru kjör eldri     borgara, endurgreidd árskort í sund, uppstokkun á störfum áhaldahúss, omfl. Flest    verkefnana hafa verið auðveld og skemmtileg en önnur erfið og krefjandi. Yfir             heildina hefur starfið verið spennandi og skemmtileg.

Eitt mál hefur þó gnæft yfir önnur og það ekki að ósekju. Um leið og þessi             sveitarstjórn var kosin fékk hún í hendur skýrslu frá norsku ráðgjafafyrirtæki um       Vestfjarðarveg 60. Þessi skýrsla var að flestu leiti mjög góð og var nú loksins teknir fyrir hagsmunir Reykhólahrepps. Í valkostaskýrslu frá Viaplan sem við fengum svo  síðar var þetta staðfest. Fyrir Reykhólahrepp og þorpið á Reykhólum væri best að  fara leið framhjá Reykhólum en ekki Þ-H leið Vegagerðarinnar.

Í skýrslunum eru fjölmargir kostir nefndir fyrir Reykhólahrepp ef farið er fyrir    ofan þorpið á Reykhólum. Þessi rök hafa ekki verið hrakin af neinum hingað til. Ég hef verið þeirra skoðunar allan tímann að umhverfið og hagsmunir Reykhólahrepps  eigi að njóta vafans. Um þetta hefur verið ágreiningur í sveitarstjórn.

Þegar þetta allt er tekið saman sé ég ekki að mér sé sætt sem oddviti sveitarstjórnar  Reykhólahrepps. Enda þarf sá aðili að koma fram fyrir hönd sveitarfélagsins, leiða  og framkvæma ákvarðanir sveitarstjórnar. Ég tel mig ekki geta komið fram fyrir hönd sveitarstjórnar þegar kemur að Þ-H leið þar sem ég get ekki stutt ákvörðun sveitarstjórnar um að velja þá leið. Það er því eðlilegt að kosinn verði nýr oddviti  sem styður og getur framfylgt ákvörðunum sveitarstjórnar í þessu stærsta máli okkar.

Ég er þó hvergi nærri hættur afskiptum af sveitarstjórnarmálum hér í             Reykhólahreppi. Ég mun halda áfram sem sveitarstjórnarfulltrúi eins og ég var             kosinn til. Enda eru fjölmörg verkefni sem varða hagsmuni Reykhólahrepps sem ég            áhuga á að berjast í. Enda var ég kosinn af íbúum Reykhólahrepps til að verja           hagsmuni Reykhólahrepps og það mun ég gera hér eftir sem hingað til.“

 

 

DEILA