Reykhólahreppur: samþykkti framkvæmdaleyfi fyrir Þ-H leið

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum í gær að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðaveg (60) á milli Bjarkalundar og Skálaness, svokallaðri Þ-H leið.

Fyrirhuguð framkvæmd felst í byggingu Vestfjarðavegar frá Bjarkalundi að Skálanesi, byggingu nýs Djúpadalsvegar í austanverðum Djúpafirði og endurbyggingu Gufudalsvegar í vestanverðum Gufufirði, ásamt efnistöku fyrir framkvæmdirnar.

Leiðin verður 20,0 km löng og styttir Vestfjarðaveg um 21,6 km. m. Byggja þarf 260 m brú yfir Þorskafjörð, tvær brýr verða yfir Djúpafjörð og 130 m brú yfir Gufufjörð. Leggja þarf 5,8 km langa tengingu að núverandi Vestfjarðavegi í Djúpafirði.

Þrír sveitarstjórnarmenn samþykktu framkvæmdaleyfið, þær Jóhanna Ösp Einarsdóttir, Árný Huld Haraldsdóttir og Embla Dögg B. Jóhannsdóttir,  einn sat hjá, Ágústa Sveinsdóttir  og oddvitinn Ingimar Ingimarsson greiddi atkvæði á móti.

Vegagerðin vinnar að því að ná samningum við landeigendur að sögn Magnúsar Vals Jóhannssonar. Helst eru það eigendur að jörðunum Gröf og Hallsteinsnesi sem hafa  lagst gegn vegagerðinni. Náist ekki samningar verður farið fram á eignarnám. Vegagerðin stefnir að því að framkvæmdir hefjist sem fyrst. Framkvæmdaleyfið er kæranlegt til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

DEILA