Pro Fishing : 2019 var metár

„Bókunarstaðan er góð fyrir komandi vertíð en árið 2019 var metár hjá fyrirtækinu og útlitið er enn betra í ár, sem eru mjög ánægjuleg tíðindi. Fyrstu gestirnir koma vestur 7. apríl nk og gerðir verða út 6 bátar frá Suðureyri og 10 bátar frá Flateyri. Heildarveiðin í fyrra var tæp 130 tonn af sjóstangaveiddum fiski sem landað var hjá Íslandssögu á Suðureyri og Fiskmarkaði Vestfjarða á Flateyri, sem er heldur meiri afli miðað við árin á undan. Mest var þetta þorskur og ca 15-20 tonn af steinbít.“

þetta segir Robert Schmidt rekstrarstjóri Pro Fishing í samtali við Bæjarins besta.

„Verið er að endurnýja allan vélarkost bátaflotans og býst ég við fjórum nýjum Volvo Penta vélum í byrjun mars og apríl en það eru 140 ha D3 vélar með hældrifi. Nú þegar er búið að endurnýja 10 vélar og í apríl verða þá 14 af 16 vélum endurnýjaðar. Gömlu vélarnar eru síðan 2007 og komnar á síðasta snúning. Veltir sér um innflutning á nýju vélunum. Vissulega kostnaðarsöm framkvæmd en engu að síður nauðsynleg enda eru bátarnir hjarta fyrirtækisins og án þeirra væri engin útgerð.

Við vorum heppnir að bátarnir okkar lentu ekki  í snjóflóðinu á Flateyri í janúar sl en jaðar flóðsins fór um 20 metrum frá bátunum sem standa á nýju uppsáturssvæði skammt frá húsum fyrirtækisins við Melagötu. Hins vegar fór einn aðstöðugámur undir flóðið sem gjör-eyðilagðist. Það var tjón uppá tæpar 5 milljónir. Fyrirtækið var með gildar tryggingar og í framhaldinu bætti Náttúruhamfarasjóður Íslands tjónið. Minniháttar foktjón varð á rúðum báta og þakkönntum einstakra húsa í janúar og febrúar. En þetta eru allt hlutir sem má bæta og endurnýja og við sluppum vel frá þessum hamförum.“

Aukið við á Suðureyri 

Í sumar er fyrirhugað að hefja frekari landfyllingu við Höfðastígshúsin á Suðureyri, sem standa við lónið. Fyrirtækið hyggst byggja þar tvö ný hús árið 2021 og selja tvö hús sem staðsett eru í þorpinu. Þá verða alls 5 hús staðsett við lónið og öll aðstaða betri og þægilegri fyrir okkar gesti.Við erum með 9 slík hús á Flateyri og sex af þeim eru leigð út til Lýðskólans á Flateyri frá hausti til vors. Stefnt er að mála öll húsin í sumar og áfram verða innanstokksmunir húsana, eins og kæliskápar, rúm ofl endurnýjaðir.

Bátar fyrirtækisins. Myndir: Robert Schmidt.

Fyrirtækið er í góðum rekstri og skapar mörg störf fyrir vestan, m.a.kaupir það þjónustu frá fjölmörgum iðnfyrirtækjum og þjónustu. Gestirnir okkar kaupa mikið af matvörum og veitingum á svæðinu sem er breyting frá fyrstu árunum. Mikill uppgangur er hjá Iceland Pro Fishing og við lítum björtum augum á framtíðina því sjóstangaveiðimenn frá Evrópu eru ekki að afbóka sínar ferðir eins og svo margir ferðamenn hafa gert síðustu misseri. Við finnum bara fyrir aukinni bókunarstöðu og áhuginn er augljóslega mikill. Helst eru þetta þýskir veiðimenn, einnig austurrískir, breskir og hollenskir sem koma vestur og áætlað er að um helmingur þeirra komi árlega með stangirnar sínar. Tíðarfarið var gott í fyrra og vel veitt. Kvóta þarf fyrirtækið að kaupa frá Fiskistofu og eru allir bátarnir okkar 16 skráðir í frístundakerfinu. Mikið er lagt í öryggi okkar gesta og bátaflotanum stýrt og vaktaðir úr landi af leiðsögumönnum fyrirtækisins og í góðri samvinnu við Landhelgisgæsluna og Neyðarlínuna.

 

Mitt fyrsta verk í mars verður náttúruleg að moka frá bátaflotanum og gera þá klára fyrir sjósetningu og aðalskoðun. Skóflan er klár,“ segir Róbert Schmidt rekstrarstjóri Iceland Pro Fishing.

DEILA