Óbyggðanefnd: suðausturhluti Drangajökuls er þjóðlenda

Óbyggðanefnd kvað í gær, 21. febrúar 2020, upp úrskurð í þjóðlendumáli í Strandasýslu þar sem sá hluti Drangajökuls sem er innan sýslunnar var úrskurðaður þjóðlenda. Með úrskurðinum lýkur málsmeðferð óbyggðanefndar á svonefndu svæði 10A, Strandasýslu ásamt fyrrum Bæjarhreppi. Innan svæðisins gerði íslenska ríkið einungis kröfu um þjóðlendu á umræddum hluta jökulsins. Á móti bárust kröfur og athugasemdir vegna fimm jarða í Árneshreppi. Niðurstaða nefndarinnar var að fyrrnefndur hluti jökulsins væri utan eignarlanda og því þjóðlenda.

Alls bárust því kröfulýsingar og athugasemdir vegna fimm jarða í Árneshreppi, þ.e. Skjaldabjarnarvíkur, Dranga, Drangavíkur, Engjaness og Ófeigsfjarðar sem töldu sig eiga land inn á kröfusvæði ríkisins, þ.e. Drangajökul.

Niðurstaða Óbyggðanefndar er þessi:

Landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir, þ.e. suðausturhluti Drangajökuls, er þjóðlenda í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998, sbr. einnig a-lið 7. gr. laganna:

Upphafspunktur er við Hrolleifsborg. Þaðan er jökuljaðri Drangajökuls fylgt suður uns komið er að þeim stað sem er á sýslumörkum Strandasýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu. Þaðan er farið norður eftir sýslumörkum og sveitarfélagamörkum og svo til norðausturs, eftir sömu mörkum, að upphafspunktinum Hrolleifsborg. Miðað er við stöðu jökulsins eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga, nr. 58/1998, 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. laganna.

 

Hlutverk Óbyggðanefndar er:

að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.

að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.

að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

Af því leiðir að úrskurðir óbyggðanefndar fela ekki í sér afstöðu til réttinda einstakra aðila yfir eignarlandi eða hver séu mörk milli eignarlanda og leiða ekki til neinna breytinga þar á.

 

 

DEILA