Ný reglugerð um grásleppuveiðar – 25 daga veiðar

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um grásleppuveiðar árið 2020.  Reglugerðin heimilar veiðar í 25 daga á hvert veiðileyfi en dagafjöldinn verður endurskoðaður í ljósi ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar sem vænta má fyrir 1. apríl. Þá mega veiðar hefjast fyrr en verið hefur eða 10. mars og heildarlengd neta sem hver bátur má vera með er óbreytt frá fyrra ári.

Til að bregðast við vandamálum vegna óæskilegs meðafla við grásleppuveiðar sem og til að bregðast við bágu ástandi selastofna við landið hefur 14 svæðum við landið verið lokað. Byggt er á tillögum frá Landssambandi smábátaeigenda að lokun 14 svæða við Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir, Húnaflóa og í Skagafirði.Í flestum tilfellum er reglugerðin fyrir veiðar þessa árs samhljóða þeim tillögum en þó voru tvö svæði stækkuð, á grundvelli gagna frá Fiskistofu og til að vernda sjófugla í Faxaflóa.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að reglugerðin miði að því að draga úr meðafla sjófugla og sjávarspendýra við grásleppuveiðar og að ná samþykktum stjórnunarmarkmiðum fyrir landsel við Ísland.  Markmiðið er að stofn landsels verði nálægt 12.000 dýr en samkvæmt síðustu talningu sem framkvæmd var árið 2018 var stofninn metinn um 9.500 dýr.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bindur vonir við að þær aðgerðir sem nú koma til framkvæmda muni draga úr meðafla spendýra og sjófugla og stuðla að uppbyggingu þeirra stofna. Það er mat ráðherra að með reglugerðinni sé stigið mikilvægt skref til verndar selastofna við Ísland.

DEILA