Níels A. Ársælsson

Níelsi kynntist ég á unglingsárum gegnum sameiginlegan vin okkar og kæran félaga, Einar Steinsson, sem lést sviplega fyrir þremur árum. Vegir okkar Níelsar lágu aftur saman fyrir tveimur áratugum þegar hann rak fiskeldisfyrirtæki á Tálknafirði.

Eftir þau kynni má segja að Níels hafi verið nokkur örlagavaldur í mínu lífi. Níels var mjög stórhuga og hafði mikinn frumkvöðlakraft. Hann var manna fyrstur til að þróa hágæða aflameðferð með kælingu og vinnslu á ferskum flökum um borð í sínu skipi, Bjarmanum.

Hann hafði mikil áform um að smíða hátæknifjölveiðiskip, sem ekki tókst að fjármagna. Níels fékk mig í lið með sér til að undirbúa og byggja upp stórtækt laxeldi í sjó fyrir síðustu aldamót.

Fyrir hans tilverknað fluttum við fjölskyldan til Tálknafjarðar árið 2001 og er það ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í mínu lífi. Því miður gengu þessar áætlanir Níelsar um laxeldi ekki eftir. Ljóst má vera að byggðaþróun hefði orðið með öðrum hætti ef svo hefði orðið. Níels var fyrst og fremst Tálknfirðingur og vildi gera allt fyrir sína heimabyggð. Fyrir fáeinum vikum sat ég fastur í snjóskafli á mínum bíl hér á Tálknafirði.

Eins og góður Tálknfirðingur hjálpaði Níels mér. Hann var breyttur maður. Blessuð sé minning hans. Votta fjölskyldu og vinum innilega samúð.

Jón Örn Pálsson.

DEILA