Meira um frístundastyrki

Frá Náttúrubarnaskólanum. Mynd: Dagrún Ósk Jónsdóttir

Eins og áður hefur komið fram hér á Bæjarins besta eru ekki greiddir út frístundastyrkir á Ísafirði en slíkar greiðslur eru til staðar Í Bolungarvík og Súðavík.

Í svörum við fyrirspurn um frístundastyrki frá Tálknafirði, Vesturbyggð og Strandabyggð kemur fram að þar er ekki um að ræða greiðslur í formi frístundastyrkja.

Hins vegar er í öllum sveitarfélögunum um að ræða verulegan stuðning við íþróttastarf barna og ungmenna.

Þannig heldur Vesturbyggð úti íþróttaskóla fyrir börn í 1. til 4. bekk fimm daga vikunnar. Þar er boðið upp á fjölbreyttar íþróttir og fræðslu í samfellu við skólastarf. Jafnframt niðurgreiðir sveitarfélagið að fullu afnot af allri íþróttaaðstöðu fyrir æfingar barna í sveitarfélaginu. Þannig geta íþróttafélögin haldið æfingagjöldum í lágmarki.

Á Tálknafirði og Strandabyggð er þetta með svipuðu sniði eftir þeim upplýsingum sem Bæjarins besta hefur aflað sér.

DEILA