Línuívilnun áfram

Þóroddur Bjarnason afhendir sjávarútvegsráðherra skýrsluna. mynd: aðsend.

Starfshópur skipaður 30. apríl 2019 af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til að endurskoða meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir leggur til að línuívilnun verði áfram en að ónýttur kvóti á hverju þriggja mánaða tímabili verði færður sem almennur byggðakvóti í þeim byggðarlögum sem hafa nýtt sér línuívilnun síðustu 10 ár í samræmi við hlutdeild þeirra.  Það þýðir að samdráttur í línuveiðum myndi skila meiri byggðakvóta. Samkvæmt tillögunni verður næstu sex fiskveiðiár föstu hlutfalli heimilda úthlutað sem línuívilnun.

Þetta er meðal tillagna starfshópsins. Í honum voru

  • Bergþóra Benediktsdóttir aðstoðarmaður forsætisráðherra.
  • Gunnar Atli Gunnarsson aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
  • Þorsteinn Víglundsson alþingismaður.
  • Þóroddur Bjarnason prófessor (formaður).

 

  • Í skýrslu sem RR ráðgjöf tók saman fyrir samtök sjávarútvegssveitarfélaga kemur fram að hlutur Bolungavíkur og Ísafjarðarbæjar í línuívilnun á 10 ára tímabili hafi samtals verið 33%. En um 17 þúsund tonn voru veidd á línu á þessum tíma í ofangreindum sveitarfélögum og  áætlað verðmæti veiðiheimildanna sem línuívilnunun gaf er um 4,5 – 5 milljarðar króna.

Aðrar helstu tillögur starfshópsins eru:

  • Tilgangur og markmið atvinnu- og byggðakvóta verði betur skýrð í lögum og árangur þeirra metinn.
  • Áhersla verði lögð á stuðning við smærri sjávarbyggðir í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
  • Að ótvírætt sé að 5,3% aflaheimilda eru dregin frá heildarafla í hverri tegund vegna atvinnu- og byggðakvóta áður en aflaheimildum er úthlutað á einstök skip.
  • Innbyrðis skipting þeirra 5,3% aflaheimilda sem dregin eru frá heildarafla í hverri tegund vegna atvinnu- og byggðakvóta verði fest til sex ára.
  • Almennum byggðakvóta verði úthlutað til sex ára í samræmi við meðaltal fyrri ára og svigrúm aukið til að nýta hann í samræmi við aðstæður á hverjum stað.
  • Ónýttri línuívilnun verði úthlutað sem almennum byggðakvóta í samræmi við hlutdeild einstakra byggðarlaga á undangengnum árum.
  • Gert verði upp við handhafa skel- og rækjubóta og þær aflaheimildir renni í varasjóð til að bregðast við óvæntum áföllum í sjávarbyggðum.

 

 

DEILA