Leiklistarmiðstöð opnuð á Þingeyri á sunnudaginn

Leikhúslífið á Þingeyri stendur í svo miklum blóma þessi misserinn að gamansamir eru farnir að nefna eyrina, leikhúseyri. Núna á sunnudag verður nýjasta viðbót leikhúseyrarinnar fagnað, Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins. Leikhúsið kómíska hefur síðustu áratugi verið gert út frá heimahúsi með æfingaaðstöðu hér og hvar og leikmyndageymslur útum alla Vestfirði. En fyrir áramót varð sannlega breyting á þegar Ísafjarðarbær gekk í málið og kom húsi undir starfsemina. Húsnæðið er í hjarta leikhúseyrarinnar að Vallargötu 3, beint fyrir neðan leikhúsið á Þingeyri, og skáhalt á móti Hótel Sandafelli.

Að þessu tilefni verður opið hús í Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins núna á sunnudaginn 23. febrúar kl.14.01. Gestum gefst þá kostur á að skoða þessa nýju aðstöðu leikhússins á eyrinni. Sagt verður frá tilgangi Leiklistarmiðstöðvarinnar og stiklað stuttlega á sögu Kómedíuleikhússins en þó aðallega pælt í næstu verkefnum og kómískri framtíð. Boðið verður upp á Þingeyrarsnittur, kaffi og gos á opna húsi Leiklistarmiðstöðvar Kómedíuleikhússins. Nú er ekkert annað en að gera sér ferð á leikhúseyrina á helginni.