Krakkar á Vestfjörðum rækta sér til matar í skólanum

Nýtt verkefni er nú að hefjast sem snýr að ræktun matjurta í skólum á Vestfjörðum. Verkefnið er unnið af sprotafyrirtækinu Fræ til framtíðar í samstarfi við Landbúnaðarháskólann, og er styrkt af Matarauði Íslands. Verkefnið er tilraunaverkefni til eins árs þar sem 3. bekkingum í 5 skólum verður kennt að rækta sér til matar. Skólarnir sem um ræðir eru grunnskólarnir í Bolungarvík, Ísafirði, Þingeyri, Tálknafirði og Patreksfirði. Hugmyndin er að opna augu nemenda og auka meðvitund um hvaðan matur kemur, hvað þarf til að rækta, hvað felst í sjálfbærni, matarsóun, umhverfisvernd og fleira.

Fræ til framtíðar leggur til vatnsræktunarkerfi ásamt hráefni. Kennsluefnið er unnið af Landbúnaðarháskólanum ásamt því að vera þróað með fulltrúum Fræ til framtíðar og þeim kennurum sem taka þátt í verkefninu. Fulltrúar Fræ til framtíðar heimsækja skólana á 4 vikna fresti, eða eins og þarf, en nemendur sjá sjálfir að miklu leyti um ræktunina ásamt kennurum sínum. Nemendur halda dagbók með mælingum ásamt því að vinna skemmtileg verkefni tengd viðfangsefninu.

Verkefnið er nú hafið í grunnskóla Bolungarvíkur og grunnskóla Þingeyrar. Mikil ánægja hefur verið innan skólanna og hefur verkefnið mætt miklum áhuga jafnt nemenda sem kennara sem hafa haft orð á því að verkefnið bjóði uppá þverfaglega tengingu sem einskorðast ekki aðeins við raungreinar heldur einnig t.d. við tungumálakennslu, listgreinar og að sjálfsögðu matreiðslu.

Fræ til framtíðar er sprotafyrirtæki sprottið úr viðjum frumkvöðlasetursins Djúpsins í Bolungarvík en Gunnar Ólafsson fer fyrir því.

DEILA