Kollsvík: Menningarsögulegt stórtjón

mynd úr rofinu í Grundabökkum í Kollsvík. Hún var tekin í fyrra eða hittifyrra; þær mannvistarminjar sem þarna sjást eru nú horfnar. Mynd: V.Ö.

Óveðrið í vetur olli óbætanlegum skaða á Láganúpsveri í Kollsvík, sem allt fram á síðustu öld var stærsta verstöð sunnanverðra Vestfjarða,  segir í tilkynningu frá Valdimar Össurarsyni frá Láganúpi.

„Rof hófst fyrir fáum áratugum á þessari fornu verstöð, og opnaðist þá rofsár í mannvistarlög sem líklega eru meira en 600 ára gömul; hver grjóthleðslan yfir annarri; þykk fiskbeinalög; gólfskánir og forn eldstæði blöstu við í sárinu.  Landeigendur hófu þá að beita sér fyrir því við Vegagerðina, sem hefur lagaskyldur í vörnum slíkra minja, að þarna yrði sett grjótvörn.  Það hafði þá verið gert við hina fornu Brunnaverstöð á Hvallátrum með góðum árangri.  Fjárveiting lá fyrir á síðasta ári, en fyrir mistök Vegagerðarinnar varð þá ekki af framkvæmdum.“

Nú í vetur varð þarna stórtjón, þannig að mikið af minjum sem sáust í fyrra eru horfnar.  Sjór hefur flanað hærra en vanalega í stórstraumsflæðum og miklum sjávargangi og skolað skeljasandi undan bökkunum , þannig að jarðlögin hrynja og hverfa og jarðvegstorfan hrynur niður, eins og sjá má af myndinni.

Hér sést hvernig sjór hefur rifið úr bökkunum í Kollsvík.  Þetta er SV-til í víkinni, þar sem heita Grundabakkar í landi jarðarinnar Láganúps, og hér stóðu verbúðir á bakkabrúninni.  Fyrir nokkrum árum náðu bakkarnir 3-4 metrum framar en þarna sést, og höfðu þá ekki breyst í manna minnum.  Síðustu árin hefur verið þarna töluvert rof, en aldrei þó eins hratt og síðustu mánuðina.  Í áhlaupunum í vetur gróf undan torfunum sem þarna sjást fallnar niður.  Með þessu hverfur menningarsagan, án þess að hún hafi áður verið rannsökuð og án þess að minjarnar hafi verið teiknaðar og mældar segir í fréttatilkynningu Valdimars.

G.Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að framkvæmdir séu að fara af stað. Þetta hafi verið í bið og Vegagerðin í viðræðum við landeiganda. Hann segist vonast til þess að framkvæmdir gangi vel í þessari atrennu meðan frost er í jörðu.

Valdirmar Össurarson segir núna hilli loksins undir það að Vegagerðin hefjist handa við gerð sjóvarna við Grundabakka.  „Vegagerðin hefur samið við verktaka á Bíldudal um að hefja verkið um leið og unnt er vegna veðurs og frosts.  Aka þarf stórgrýti yfir þvera Kollsvíkina um hálfónýtan veginn og yfir viðkvæm uppblásturssvæði.  Því er ekki unnt að vinna verkið nema að frost sé í jörðu.  Nú er horft til þess að hefja það á næstu dögum.  Mun undirritaður líklega verða á staðnum og fylgjast með því, fyrir hönd annarra landeigenda.“

DEILA