Knattspyrna: Vestri fær nýjan leikmann og semur um markaðsmál

Samúel og Ragnar handsala samninginn að lokinni undirskrift. Mynd: Vestri.is

Knattspyrnudeild Vestra hefur fengið nýjan leikmann til liðs við félagið til þess að styrkja liðið fyrir komandi sumar í 1. deildinni. Það er miðvörðurinn Ivo Öjhage sem genginn e til liðs við Vestra út leiktímabilið.

Ivo, sem er 26 ára gamall, stór og stæðilegur Svíi, kemur frá Levanger í Noregi. Ivo hefur  einnig spilað í vinstri bakvarðar stöðunni.

Samið við Viðburðastofu Vestfjarða 

Í fyrradag  skrifuðu þeir Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs, og Ragnar H. Sigtryggsson, eigandi Viðburðastofu Vestfjarða, undir samning þess efnis að Viðburðastofa Vestfjarða muni sjá um markaðs- og útsendingarmál fyrir knattspyrnudeild næstu 3 leiktímabilin.

Felst það meðal annars í útsendingu á leikjum, hönnun á auglýsingum og allri umsjón samfélagsmiðla knattspyrnudeildar.

Með þessum samningi er vonast  til þess að stórefla alla umfjöllun um meistaraflokk Vestra í knattspyrnu og einnig er ætlunin að sýna beint frá öllum leikjum liðsins í sumar.

Viðburðastofan hefur yfir mjög öflugum útsendingarbúnaði að ráða og inniheldur það meðal annars tvær öflugar fartölvur sem eru notaðar undir útsendinguna og graffík vinnslu á meðan leik stendur. 3 öflugar Canon upptökuvélar eru svo notaðar til að ná öllu því sem gerist á vellinum.

DEILA