Ísafjarðarbær: vilja þvera Vatnsfjörð í Breiðafirði

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til að þverað verði yfir Vatnsfjörð samkvæmt veglínu F2 eða F3 og segir það ákjósanlegasta kostinn í leiðarvali í fyrsta áfanga að nýjum vegi yfir Dynjandisheiði. Segir í bókun nefndarinnar að gera megi ráð fyrir því að ásýnd í landslagi verði veruleg, en hinsvegar felur umhverfismat í sér að samfélagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg sjónarmið séu metin. Veglínur F2 og F3 í áfanga I munu hafa jákvæð áhrif á þá sem munu dveljast í Vatnsfirði, þar með jákvæð áhrif á útivist og ferðamennsku segir í bókuninni.

jarðgöng ákjósanlegust á heiðinni

Í áfanga II eru lagðir fram eftirfarandi valkostir þ.e. veglínur F, B2, D og E. Þar segir skipulags- og mannvirkjanenfndin að í samanburði valkosta sé leið E frá Norðurdalsár og norður fyrir Botnshestinn þ.e. jarðgangaleiðin ákjósanlegasti kosturinn með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar.

F leið um Dynjandisvog

Í framhaldi áfanga II er Veglína F um Dynjandisvog ákjósanleg m.t.t. umferðaröryggissjónarmiða og minna rasks á fornminjum. Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til að leið F verði farin um Dynjandisvog og að ásýnd framkvæmdarinnar verði lágmörkuð með mótvægisaðgerðum. Nefndin leggst gegn leiðarvali D þar sem hún uppfyllir ekki viðmið um hönnunarstaðla.

Veglína Z í áfanga III

Í áfanga III: Bíldudalsvegur, Bíldudalsflugvöllur-Vestfjarðarvegur er lagt upp með veglínur x, y og z. „Almenn sátt virðist ríkja á milli Vegagerðar og landeigenda með veglínu Z og leggur Vegagerðin til að sú leið verði valin. Nefndin tekur undir sjónarmið Vegagerðar.“ segir í bókuninni.