Ísafjarðarbær: úttekt á íþróttaskóla HSV

Hafdís Gunnarsdóttir formaður fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar segir að beðið sé úttektar á íþróttaskóla HSV sem Rannsókn og greining hjá Háskólanum í Reykjavík vinnur að. Hún mun liggja fyrir innan skamms segir Hafdís og þá verði núverandi fyrirkomulag á stuðningi við íþrótta- og æskulýðsstarfi metið.

ASÍ birti á dögunum samantekt í 16 sveitarfélögum yfir stuðning með frístundastyrk sem er til þess að styðja við tómstundastarf barna og unglinga. Þar kom fram að í Ísafjarðarbæ er enginn frístundastyrkur en hann er frá 20.000 kr upp í rúm 50.000 kr á ári í 14 sveitarfélögunum af þessum 16.

Hafdís segir að Ísafjarðarbær hafi ákveðið að fara þá leið að styrkja starf HSV í ríkara mæli með fjárframlögum. Það leiði til þess að æfingagjöld verði lægri en ella. Þannig sé greitt 7-8000 kr tvisvar á ári í boltaíþróttum auk þess sem samfella er í starfi íþróttaskólans og grunnskólans. Þá sé boðið upp á styrktarþjálfun upp í 8. – 10. bekk og fyrir 5. – 7. bekk eru æfingar fyrir börn sem ekki hafa fundið sig í hópíþróttum.

Frístundakost nær til fleiri kosta og það nýtist til þess að greiða kostnað við tónlistarnám. Hafdís Gunnarsdóttir segir að það komi til greina að endurmeta núverandi fyrirkomulag þegar fyrrgreind úttekt liggur fyrir.

Úr skýrslu ASÍ um frístundakort.