Fiskikör skulu vera hrein

Eftirlitsmenn Matvælastofnunar hafa víða orðið varir við óhreinindi í fiskikörum. Einnig berast stofnuninni reglulega kvartanir frá sjómönnum og fiskkaupendum um óhrein og skemmd löndunarkör.

Kör sem notuð eru fyrir matvæli þurfa að vera hrein og er það eingöngu tryggt með hreinsun eftir hverja notkun. Jafnframt er óæskilegt að nota fiskikör fyrir annað en matvæli. Kör til annarra nota skal merkja sem slík og ekki nota aftur fyrir matvæli.

Hér eru birtar nokkrar myndir sem eftirlitsmenn hafa tekið af körum á höfnum landsins. Um er að ræða kör sem eru í notkun sem fiskikör, ekki afskrifuð kör sem tekin hafa verið afsíðis. Matvælastofnun mun fylgjast áfram með ástandi kara og hvetur þá sem leggja kör fram til löndunar að minnast þess að körin eru ílát undir matvæli.