Fiskeldi: engin svör eftir 6 ár

Sandeyri.

Matvælastofnun hefur enn ekki afgreitt umsókn um rekstrarleyfi fyrir 4.000 tonna sjókvíaeldi fyrir regnbogasilung við Sandeyri í Ísafirði. Umsóknin var upphaflega frá Dýrfisk ehf en er nú frá Arctic Sea Farm og var lögð inn í desember 2013 eða fyrir rúmum sex árum. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að eldið þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Umhverfisstofnun afgreiddi starfsleyfi fyrir eldið þann 1. apríl 2015.

Matvælastofnun gefur út rekstrarleyfi, en erindi frá MAST barst ekki Ísafjarðarbæ fyrr en marsmánuði 2019 þar sem beðið var um umsögn um áformin.

Umhverfisnefnd undrandi

Umhverfisnefndin Ísafjarðarbæjar gerði ekki athugasemd við málið og bókaði:

„Umhverfis- og framkvæmdanefnd gerir ekki athugasemd við veitingu leyfisins út frá umhverfissjónarmiðum og vísar í starfsleyfi Umhverfisstofnunar frá 2015. Nefndin lýsir yfir undrun sinni á fyrirkomulagi leyfisveitinga í fiskeldi og bendir á þá staðreynd að hér er verið að veita umsögn vegna sex ára gamallar umsóknar, en samkvæmt gildandi lögum um fiskeldi skal samtímis veita umsækjanda starfsleyfi og rekstrarleyfi sem er klárlega ekki verið að gera í þessu tilfelli. „

Nú nærri níu mánuðum síðar hefur ekkert frekar gerst. Enn er beðið eftir Matvælastofnun.

Gunnar Davíðsson, deildarstjóri hjá Tromsfylki í Noregi sagði í fyrirlestri sem hann hélt á Ísafirði í fyrra að krafist væri þess að afgreiðslu umsókna væri lokið innan 22 vikna frá því að þær eru lagðar fram og rauntölur væru nálægt því. Hann staðfesti þetta við Bæjarins besta í gær. Í þessu tilviku eru liðin rúm 6 ár.

DEILA