Fé til innanlandsflugvalla eykst um 445 m.kr.

Isavia hefur tekið yfir rekstur á Egilsstaðaflugvelli og greiðir kostnaðinn 445,8 m.kr. af eigin aflafé, sem er fyrst og fremst af Keflavíkurflugvelli. Ríkið mun nýta þetta fjármagn sem losnar úr þjónustusamningnum til þess að auka við fjárhagsstuðning við innanlandsflugvelli um land allt og efla innanlandsflugið segir í fréttatilkynningu frá Samgönguráðuneytinu.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu til hvaða verkefna eða til hvaða flugvalla fénu verður varið.

Vísað er til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kveður á um að mótuð verði eigendastefna fyrir ISAVIA. Viðauki fyrir Isavia við almenna eigendastefnu ríkisins hefur nú verið unninn í fjármálaráðuneytinu og hann tekinn til umfjöllunar hjá ráðherranefnd um ríkisfjármál.

Þar kemur m.a. fram að hagnaður af rekstri ISAVIA verði nýttur til að byggja upp innviði sem mæta þörfum flugs, þ.m.t. varaflugvallaþjónustu, atvinnulífs og samfélags á hverjum tíma ásamt því að starfsemin byggi á viðskiptalegum forsendum að teknu tilliti til samfélagslegs hlutverks eins og það birtist í eigandastefnu, samgönguáætlun og flugstefnu.