Djúpið 2019: stangveiðin á laxi aðeins þriðjungur af meðalveiði

Langadalsá. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Stangveiðin í laxveiðiánum þremur í Ísafjarðardjúpinu varð á síðasta ári aðeins þriðjungur af meðalveiði áranna 1984-2018. Þetta kemur fram í svari Hafrannsóknarstofnunar við fyrirspurn Bæjarins besta um laxveiðina 2019 í Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá.

Í Laugardalsá veiddust 73 laxar á síðasta ári. Árið áður veiddust 237 laxar svo veiðin var nærri 70% minni nú. Í Langadalsá veiddust 115 laxar í fyrra og í Hvannadalsá varð veiðin aðeins 19 laxar.

Samtals veiddust aðeins 207 laxar í þessum þremur ám. Veiðin 2018 varð 538 laxar og meðalveiðin frá 1984 – 2018 var 619 laxar á ári. Veiðin á síðasta ári var því aðeins þriðjungur af meðalveiðinni í 34 ár þar á undan.

Af löxunum 207 sem veiddust var 129 sleppt og 78 löxum var landað.

 

 

Hafrannsóknarstofnun hefur verið með vöktun í þessum þremur ám gagnvart eldislaxi á Vestfjörðum meðal annars með því að koma upp svonefndum árvaka. Kemst enginn lax óséður upp í árnar.  Árið 2018 gekk einn eldislax í Laugardalsá. Ekki er vitað til þess að neinn eldislax hafi gengið í þessar á á síðasta ári.

Hafrannsóknarstofnun hefur lagst gegn laxeldi í Djúpinu vegna hættu á að eldislax kynni að blandast laxi í ánum þremur. Burðarþolsmat Djúpsins er 30.000 tonna ársframleiðsla en engin leyfi hafa verið gefin út.

DEILA