Daníel Jakobsson yfirdómari í Vasagöngunni í Svíþjóð.

Daníel Jakobsson skíðagöngukappi og formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar verður alþjóðlegur eftirlitsdómari á stærsta skíðagöngumóti heims, Vasagöngunni sem fer fram í Svíþjóð fyrstu helgina í mars.

 

Daníel hlaut nýverið eftirlitsmannaréttindi alþjóðaskíðasambandsins eftir tveggja ára nám. „Þetta er fyrsta stóra verkefnið mitt erlendis. Áður hef ég verið aðstoðardómari en nú er ég yfirdómari, segir Daníel“.

 

Í  svona stórri göngu eru þrír í dómnefnd og aðrir þrír til aðstoðar. „Við berum ábyrgð á framkvæmd mótsins og tökum ákvarðanir og tryggjum öryggi keppenda. Svo er ég fulltrúi Alþjóðaskíðasambandsins á mótinu og tryggi að reglum sé framfylgt. Á þeðan gangan fer fram sitjum við í  sjónvarpsútsendingarbílnum og fylgjumst með göngunni. Aðstoðardómararnir skanna efni og senda til okkar ef grunur er um brot á reglum og við metum og ákveðum hvort um brot sé að ræða“

15.000 keppendur taka þátt í göngunni og uppselt er í gönguna. Útsendingin frá göngunni er einn stærsti sjónvarpsviðburður í Svíþjóð.

En hvernig kemur það til að þú færð þetta verkefni? „Þar sem að ég er mótsstjóri Í Fossavatnsgöngunni var gerð krafa um að ég hefði þessi dómararéttindi. Í henni fáum svo við sambærilega eftirlitsdómara til okkar til að taka okkur út og dæma. S.l. ár höfum við komist athugasemdalaust í gegn um mótahaldið þrátt fyrir á tíðum mjög erfiðar aðstæður. Það er horft til slíks en svo er ég líka með bakgrunn sem keppnismaður það hjálpar líka til. Hugmyndin er líka að miðla þekkingu og reynslu á milli móta en ég segi nú ekki að við höfum mikið að kenna Svíunum í þessu. Það eru reyndar afar krefjandi aðstæður þarna núna, eitthvað sem við þekkjum vel. Mjög snjólétt og tvísýnt um hvort að hægt verði að nota alla brautina. Þess vegna var ég beðinn um að koma út tveimur dögum fyrr en áætlað var og fer því núna á þriðjudaginn en mótið er næstkomandi sunnudag eftir viku. Það er mikilvægt að dómnefnd sé til staðar til að taka ákvarðanir ef einhverjar breytingar þarf að gera“.

Gangan er á milli Salen og Mora í sænsku Dölunum og er 90 km. löng. Hún fer fram fyrsta sunnudag í mars og 15.000 keppendur fá að ræsa. Fyrstu keppendur eru um 4 klukkustundir að ljúka göngunni en tímamörk eru við 12 klukkustundir.

DEILA