Búhnykkur nú þegar þörf krefur

Bent hefur verið á að útflutningur á vörum og þjónustu þurfi að aukast um eitt þúsund milljarða á 20 ára tímabili til þess að halda uppi 3 til 4% sjálfbærum hagvexti sem er forsenda batnandi lífskjara á Íslandi til lengri tíma. Það þýðir að útflutningurinn þarf að aukast um 50 milljarða að jafnaði á ári. Samdráttur í útflutningi í fyrra og sem heldur áfram á yfirstandandi ár að mati Seðlabankans er því áhyggjuefni. Við höfum orðið fyrir margs konar búsifjum sem hafa stuðlað að neikvæðri þróun útflutningsins. Bakslag í ferðaþjónustu, dýrkeyptur loðnubrestur og minni tekjur af stóriðju valda þar miklu. Þessi reynsla minnir okkur á hve mikilvægt er að fjölga stoðum útflutningsframleiðslunnar. Aukin og fjölþætt útflutningsstarfsemi er nauðsynleg forsenda þess að við getum haldið áfram að sækja fram í að bæta lífskjör í landinu.

Fiskeldi vex fiskur um hrygg

Sem betur fer sjáum við mikilsverð dæmi um aukinn útflutning. Þannig hefur fiskeldi svo sannarlega „vaxið fiskur um hrygg“, svo vitnað sé í fleyg orð úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Framleiðsla í fiskeldi hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári. Alls var slátrað um 34 þúsund tonnum. Árið 2018 nam þessi framleiðsla rúmum 19 þúsund tonnum. Þetta er 80 prósenta aukning á milli ára og á laxeldi þar langstærstan hlut að máli. Laxeldisframleiðslan tvöfaldaðist á milli ára, fór úr rúmum 13 þúsund tonnum í 27 þúsund tonn. Framleiðsla á bleikju jókst sömuleiðis myndarlega, var tæp 5 þúsund tonnum árið 2018 en 6,3 þúsund tonn í fyrra, sem er 29% aukning.

Útflutningsverðmæti fiskeldisins nam á síðasta ári nam um 25 milljörðum króna. Það svarar til um 100 milljónum króna hvern einasta virkan dag ársins. Þetta er um 90% aukning – nær tvöföldun – á milli ára.

Til þess að setja þetta í annað samhengi má benda á að útflutningsverðmæti fiskeldisafurða var um 10 prósent af verðmæti sjávarafurða í fyrra og hefur hlutfallið aldrei verið hærra.

80% launateknanna falla til á landsbyggðinni

Það gefur þessu aukið vægi í þjóðfélagslegu tilliti að laxeldisframleiðslan fer nær öll fram á Austfjörðum og Vestfjörðum, svæðum sem hafa glímt í mörgum tilvikum við fólksfækkun. Á Vestfjörðum var slátrað rúmum 16 þúsund tonnum í fyrra, en 8.500 tonnum árið 2018. Þetta er um 90 prósenta aukning. Austfirðir voru þó hástökkvararnir, hlutfallslega séð. Þar fór framleiðslan úr 3.700 tonnum í 9.700 tonn sem er 160 prósenta aukning. Það er ljóst að þessi nýja atvinnugrein er farin að hafa mikil áhrif, jafnt fyrir austan og vestan og raunar í sjálfum þjóðarbúskapnum. Þessa mun enn frekar sjá stað í ár og á næstu árum.

Tæplega 500 manns unnu í fiskeldi hér á landi árið 2018, sem er þreföldun á einum áratug. Launagreiðslur námu um 3,5 milljörðum á því ári. Um 80 prósenta launatekna í fiskeldi falla til á landsbyggðinni. Varlega talið, samkvæmt því sem Byggðastofnun reiknaði út og rímar við það sem sem við þekkjum frá öðrum löndum, má ætla að afleidd störf séu annað eins. Ljóst er að störfum fjölgaði umtalsvert og launatekjur jukust í fyrra, með stóraukinni framleiðslu og sú þróun mun halda áfram. Þetta er fagnaðarefni, ekki síst við efnahagsaðstæðurnar núna.

Fiskeldi er nú þegar orðið þýðingarmikil stoð

Veruleg tækifæri liggja í frekari vexti. Miðað við útgefin leyfi og þær forsendur sem fyrir liggja af hálfu löggjafans, má búast við aukinni framleiðslu og útflutningi í ár og í framtíðinni. Með minnkandi útflutningstekjum og meira atvinnuleysi er hið aukna fiskeldi því kærkominn búhnykkur; sannkallað búsílag. Vaxandi fiskeldi mun hjálpa okkur að ná nauðsynlegum markmiðum um auknar útflutningstekjur, hagvöxt, ný og fjölbreytt störf og veita komandi kynslóðum spennandi tækifæri. Fiskeldið er sem betur fer þegar orðin þýðingarmikil stoð í efnahagslífi okkar og mun skipta stöðugt meira máli í framtíðinni. Eftir Einar K. Guðfinnsson » Með minnkandi útflutningstekjum og meira atvinnuleysi er hið aukna fiskeldi því kærkominn búhnykkur; sannkallað búsílag.

Einar K. Guðfinnsson

Höfundur starfar að fiskeldismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS.

DEILA