Breiðafjarðarnefnd: 2020 samráð um framtíð Breiðafjarðar

Við, sem við Breiðafjörð búum, getum öll verið sammála um það að Breiðafjörður er einstakur. Við hljótum líka öll að vera sammála um það að við viljum passa upp á fjörðinn okkar svo áfram sé hægt að nýta það sem hann hefur upp á að bjóða um ókomna tíð. Við erum þó kannski ekki öll á einu máli um hvaða leiðir væri best að fara í þeirri vegferð.

Það er líka alveg eðlilegt, enda er samtalið rétt að hefjast.

Í verndaráætlun fyrir Breiðafjörð, sem var samþykkt af ráðherra árið 2015 eftir að hafa farið í umsögn sveitarfélaganna við fjörðinn, eru nefndar nokkrar leiðir til þess að styrkja vernd Breiðafjarðar. Þar á meðal að skrá svæðið á lista Ramsarsvæða yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði, tilnefna Breiðafjörð á heimsminjaskrá UNESCO eða að gera Breiðafjörð að þjóðgarði.

Hvernig er staðan í dag?

Breiðafjörður er verndaður með sérstökum lögum nr. 64/1995 um vernd Breiðafjarðar. Þó talað sé um vernd „Breiðafjarðar“ er í raun aðeins um að ræða eyjar, hólma, sker og strandlengju við innanverðan fjörðinn. Hafbolurinn og hafsbotninn liggja utan þessarar sérstöku verndar.

Lög um vernd Breiðafjarðar gera ráð fyrir að Breiðafjarðarnefnd sé ráðherra til ráðgjafar um verndarsvæði Breiðafjarðar. Í henni sitja sjö fulltrúar, fjórir tilnefndir af sveitarfélögum, einn af Minjastofnun og einn sameiginlega af Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofum Vesturlands og Vestfjarða. Formaður er skipaður án tilnefningar. Allt frá upphafi hefur sátt ríkt um skipan fulltrúa í Breiðafjarðarnefnd og hefur nefndin lagt áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélög á svæðinu eigi meirihluta fulltrúa í nefndinni.

Breiðafjarðarnefnd hefur einsett sér að nýta árið 2020 í ítarlega samráðsvinnu varðandi framtíð Breiðafjarðar. Nefndin stóð fyrir málþingi í Tjarnarlundi í Dalabyggð í október þar sem mögulegar leiðir fyrir framtíð Breiðafjarðar voru kynntar og hverjir væru mögulegir kostir þeirra og gallar. Í kjölfarið bauð nefndin til fræðslukvölda í sveitarfélögum á Snæfellsnesi og á næstunni munu sambærilegir fundir verða haldnir í Dalabyggð, Reykhólasveit og Vesturbyggð. Nefndin sér fyrir sér að nýta þessa viðburði til þess að kalla eftir viðbrögðum íbúa, sveitarfélaga, atvinnulífs og annarra hagmunaaðila.

Breiðafjarðarnefnd hefur enga ákvörðun tekið um hvaða valkostir henni þykja heppilegir fyrir fjörðinn. Hún er þó einhuga um að í það minnsta þurfi að endurskoða lög um vernd Breiðafjarðar. Rétt er að árétta að nefndin sjálf tekur engar ákvarðanir um framhaldið en hún getur lagt fram sínar tillögur um málið til ráðherra.

Nefndin leggur engar tillögur fram nema að vandlega ígrunduðu máli. Það því von hennar að íbúar og aðrir hagmunaaðilar nýti sér viðleitni nefndarinnar til að vinna þessa vinnu faglega og á málefnalegan hátt. Nefndin hvetur alla sem áhuga hafa á að fræðast meira eða koma skoðunum sínum á framfæri að vera í sambandi við Breiðafjarðarnefnd. Með góðu og málefnalegu samtali eru mestar líkur á því að við getum fundið samhljóm sem tekur tillit til mismunandi sjónarmiða varðandi framtíð Breiðafjarðar.

Á næstunni mun nefndin halda áfram að fjalla um hugmyndir varðandi framtíð Breiðafjarðar, en nefndin telur ekki seinna vænna en að velta fyrir sér möguleikum sem miða að varðveislu náttúru og menningu svæðisins og því að styrkja enn frekar samfélögin umhverfis fjörðinn.

Með von um gott samstarf,

Breiðafjarðarnefnd (www.breidafjordur.is)

DEILA