Bolungavík: leggst alfarið gegn lögþvingaðri sameiningu

Í umsögn Bolungavíkurkaupstaðar um drög að frumvarpi stjórnvalda um sameiningu sveitarfélaga segir að  aðdragandi þessa frumvarps sé harmaður og sá lýðræðishalli sem einkenndi aðdraganda þess.

Úlfarnir og lambið

„Sjálfsagður og eðlilegur réttur sveitarfélaga til að ráða sinni eigin framtíð var að engu hafður og ítrekað var vísað í „lýðræðislega niðurstöðu“ sem fólst í því að stærri sveitarfélög kusu að sameina til sín þau sveitarfélög sem minni eru.

Sagan um úlfana tvo og lambið sem kusu um hvað var í matinn í kvöld, er dæmisaga um lýðræðislega niðurstöðu sem endar hörmulega fyrir þann veikari, í þessu tilfelli lambið sem úlfarnir kusu að hafa í matinn. Þetta er saga um lýðræði hinnar sterku þar sem hinir sterku og fjölmennu kjósa hörmungar yfir hina minni. Þessi dæmisaga kennir okkur að lýðræðisleg niðurstaða manna er marklaus ef brotið er á grundvallar réttindum fólks til að hafa áhrif á eigið líf.“

93% á móti

Þá er minnt á skoðanakönnun sem MMR gerði fyrir kaupstaðinn í október 2019
meðal íbúa Bolungarvíkur um viðhorf þeirra til sameiningar. Niðurstaða hennar var afar afgerandi og söguðst 93% þátttakanda í könnuninni að þeir myndu hafna sameiningu ef kosið væri þess efnis. Þegar spurt var um viðhorf til sameininga almennt voru 82% þátttakanda neikvæð í garð sameiningar og aðeins 8% jákvæð. Í umsögninni sgeir að „Viðhorf Bolvíkinga er því afar skýrt. Engin áhugi er fyrir sameiningu og skýr vilji íbúa að hafna hugmyndum þess efnis.“

Tillaga að sáttum

Bæjarráð Bolungavíkur leggur til í sáttaskyni að  að felld verði úr lögunum ákvæði um lágmarksfjölda sveitarfélaga. Í stað þess beiti sveitarstjórnarráðherra sér fyrir því að meta hæfni allra sveitarfélaga á Íslandi, óháð stærð, til að veita þá þjónustu sem nauðsynleg er til að sveitarfélag teljist sjálfbært. Aukin framlög til Jöfnunarsjóðs verði svo nýtt til að skapa hvata til sameiningar fyrir viðkomandi sveitarfélög. Ef sveitarfélag er raunverulega ekki fjárhagslega, samfélagslega eða stjórnsýslulega ekki sjálfbært eru yfirgnæfandi lýkur til þess að vilji íbúa standi til sameiningar.

 

Bæjarráð Bolungarvíkur leggst alfarið gegn lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga. Þess í stað er lagt til að stjórnvöld beiti sér fyrir því að vinna saman með sveitarfélögunum og íbúum þess að öll sveitarfélög, óháð stærð, verði sannarlega fjárhagslega, samfélagslega og stjórnsýslulega sjálfbær.