Bolungavík: fagnar skýrslu um 5,3% aflaheimildir

Bæjarráð Bolungavíkur ræddi  nýútkomna skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um atvinnu- og byggðakvóta vegna endurskoðunar á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda.

Bæjarráðið lýsti yfir  mikilli ánægju með framkomna skýrslu og niðurstöðu hennar.

Segir í bókun bæjarráðsins að „skýrslan er vel unnin og eru tillögunar skynsamlegar. Bæjarráð Bolungarvíkur skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að tillögurnar sem koma fram í skýrslunni verði að veruleika við fyrsta tækifæri.“

Bæjarráð bendir sérstaklega á tillögur um línuívilnun og nýtingu þeirra aflaheimilda sem undir þær falla.

Fram kemur í skýrslu sem RR ráðgjöf vann í fyrra fyrir samtök sjávarútvegssveitarfélaga að það eru tiltölulega fá sveitafélög sem hafa nýtt sér línuívilnunina umfram önnur. Síðustu 10 fiskveiðiár hefur 22% af ívilnunni farið til útgerða í Bolungavík. Næst kemur Snfellsbær með 18% af ívilnuninni og Ísafjarðarbær er í þriðja sæti yfir sveitarfélög sem hafa nýtt sér línuívilnun með 11%.

Í veiðiheimildum er línuívilnunin 11.420 tonn til Bolungavíkur á 10 árum og 5.884 tonn til útgerða í Ísafjarðarbæ.