Blábankinn

Gestur í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða er Arnar Sigurðsson og mun hann fjalla um Blábankann, sem er tilraunaverkefni á Þingeyri.

Blábankinn er frumkvöðla- og samfélagsmiðstöð sem starfað hefur í rúm tvö ár. Farið verður yfir gang verkefnisins og þeirri spurningu velt upp hvað megi læra af tilrauninni sem gæti yfirfærst á aðra staði.

Arnar Sigurðsson er forstöðumaður Blábankans á Þingeyri. Arnar er frumkvöðull á sviði samfélagslegrar nýsköpunar, er einn af stofnendum fjártæknifyrirtækisins Karolina Fund og hefur hann unnið við tækni og skapandi greinar.

Hann kennir einnig áfangann Nýsköpun og frumkvöðlastarf (e. Innovation and entrepreneurship) í mastersnáminu í Sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða.

Vísindaportið er opið öllum og fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 n.k. föstudag.