Birgir Gunnarsson ráðinn bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hefur ákveðið að ráða Birgi Gunnarsson í starf bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Birgir er fæddur árið 1963 og er uppalinn á Siglufirði og lauk þaðan grunnskólanámi.  Hann er stúdent frá Fjölbrautaskóla NV á Sauðárkróki og rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst. Því til viðbótar lauk hann námi í rekstri og stjórnun frá háskólanum í Gautaborg.  Birgir á þrjú börn og er í sambúð með Astrid Boysen sem einnig á þrjú börn.

Birgir var forstjóri Reykjalundar endurhæfingarmiðstöð í Mosfellsbæ þar til í  lok s.l. árs. Áður var hann forstjóri á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki frá 1991-2007.

Birgir hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum s.s. setið stjórn Norræna heilbrigðisháskólans í Gautaborg, formaður Landssambands heilbrigðisstofnana, formaður félags forstöðumanna heilbrigðisstofnana og ýmislegt fleira.

Birgir mun hefja störf fyrsta mars n.k. en ráðningin er með fyrirvara um samþykki bæjastjórnar sem kemur næst saman 20. febrúar n.k.

DEILA