2700 þorskar merktir 51 hafa veiðst aftur

Við Ísland hafa merkingar verið notaðar til að rannsaka far fiska í meira en eina öld en árið 1904 var fyrsti þorskurinn merktur við Ísland. Síðan þá hefur þorskur verið merktur reglulega en með nokkrum hléum.

Í mars 2019 voru 1800 þorskar merktir á Vestfjarðarmiðum og við Kolbeinsey. Merkingunum var haldið áfram í október 2019 en þá voru ríflega 900 þorskar merktir í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi.
Með þessum merkingum er meðal annars verið að athuga hvort einhverjir þorskar endurheimtist utan íslenskrar lögsögu en einnig er verið að skoða far ungfisks af uppeldissvæðum.
Niðurstöður merkinga gefa mikilvægar upplýsingar um far fiska, það er að segja hvert þeir fara og hvenær. Áætlað er að halda merkingum á þorski áfram í ár.

Fimmtíu og einn þorskur hafa veiðst aftur úr merkingunum árið 2019. Flestar endurheimtur eru úr merkingum á Vestfjarðarmiðum. Fljótlega eftir merkingu í mars og fram á vor endurheimtust þorskar á Vestfjarðarmiðum, í Breiðafirði og við Reykjanes. Þeir sem endurheimtust í Breiðafirði og við Reykjanes gengu þangað til hrygningar. Sex þorskar úr merkingunum á Kolbeinseyjarhrygg hafa endurheimst, þar af einn á handfæri á hrygningartíma innst í Skagafirði.

Hinir fimm endurheimtust á Kolbeinseyjarhrygg eða við Kolbeinsey á fæðutíma. Einn þorskur sem var merktur í Skagafjarðardjúpi endurheimtist við Kolbeinsey. Tveir þorskar sem merktir voru í Arnarfirði hafa endurheimts en þeir veiddust í Arnarfirði fljótlega eftir að þeir voru merktir.

Sjómenn hafa, ásamt starfsfólki í fiskvinnslum, verið öflugir liðsmenn í merkingarverkefnum á undanförnum áratugum og er þátttaka þeirra ómetanleg. Allir fiskarnir í þessum merkingum eru tvímerktir, þ.e. einu merki er komið fyrir sitthvoru megin við bakuggann en það er gert til þess að auka líkurnar á að merki finnist ef fiskur endurheimtist og meta tíðni merkjataps. Þegar sjómenn eða fiskvinnslufólk finna merktan fisk eru þau beðin um að senda merkin (eða eitt merki ef hitt hefur tapast) til Hafrannsóknastofnunar.

Hægt er að senda allan fiskinn eða fjarlægja merkin úr honum og senda þau. Ávallt þurfa að fylgja upplýsingar um staðsetningu veiðistaðar, dagsetningu, dýpi og tegund veiðarfæris. Einnig er mikilvægt að stofnunin fái aðrar upplýsingar, svo sem lengd fisksins, kyn, kynþroska og að kvarnir séu fjarlægðar og sendar með merkinu.
Ekki má heldur gleyma að senda með upplýsingar um þann aðila sem sendir merkið. Greiddar eru 2000 krónur fyrir hvert hefðbundið slöngumerki sem er skilað til Hafrannsóknastofnunar.