Alþingi: Álftafjarðargöng lögð til

Ný göng myndu leysa elstu jarðgöng landsins af hólmi, en þau eru í gegnum Arnarneshamarinn og voru gerð 1949. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Mælt hefur verið fyrir þingsályktunartillögu um  gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Það er varaþingmaðurinn Arna Lára Jónsdóttir, Samfylkingu  sem leggur máli fram.

Lagt er til  að  Súðavíkurgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi verði sett á samgönguáætlun 2020–2034. Gert verði ráð fyrir göngunum í aðgerðaáætlun fyrir tímabilið 2020–2024 og þegar hafnar rannsóknir og undirbúningur að gerð ganganna. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um framvinduna fyrir árslok 2020.

Fram kom hjá framsögumanni að skynsamlegast væri að göngin væru frá Engidal í Skutulsfirði í Álftafjarðarbotn.

Í greinargerð með tillögunni segir að drög að samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020–2034 hafi verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar en í drögum að annrri skemmri áætlun  til næstu fimm ára, 2020–2024  virðist ekki gert ráð fyrir Súðavíkurgöngum.

Alþingi samþykkti 12. október 2016 þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018 (145. löggjafarþing, 638. mál). Þar var gert ráð fyrir  fjármagni til rannsókna á jarðgöngum milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar 5 m.kr. árið 2017 og aftur sama fjárhæð 2018.  Í greinaerð með tillögunni er minnt á þetta og segir að ekkert hafi gerst enn sem komið er.

Þá segir í greinargerðinni:

„Gerð Súðavíkurganga er afar brýn út frá byggðasjónarmiðum en ekki síður út frá öryggissjónarmiðum. Á Súðavíkurhlíð eru skilgreindir 22 snjóflóðafarvegir og eru fjölmörg dæmi um snjóflóð og grjóthrun í hlíðinni. Vegagerðin og Snjóflóðasetur Veðurstofunnar fylgjast vel með öllu hættumerkjum og hafa gefið út viðvaranir og lokað hlíðinni ef svo ber undir. Árið 2018 féllu 61 flóð niður á veg samkvæmt talningu Vegagerðarinnar en bent skal á að fjölmargar viðvaranir og lokanir eru gefnar út á hverjum vetri til að hindra slys á fólki.“

og greinargerðinni lýkur með þessum orðum:

„Líkt og farið hefur verið yfir hér að framan mundu Súðarvíkurgöng, jarðgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar, fela í sér brýna samgöngubót fyrir bæði íbúa Súðavíkur og íbúa á norðanverðum Vestfjörðum, sem og aðra sem fara þar um. Það á ekki síst við yfir vetrartímann þegar vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er ein helsta samgönguleið vegfarenda.“

 

 

DEILA