30 ár frá undirritun þjóðarsáttarsamninganna

Frá undirrituninni 1990. Mynd: RUV.

Í dag eru rétt 30 ár frá því að þjóðarsáttarsamningarnir voru undirritaðir. Það voru þeir Ásmundur Stefánsson forseti Alþýðusambands Íslands og Einar Oddur Kristjánsson formaður Vinnuveitendasambands íslands og fleiri sem  undirrituðu kjarasamning á almennum vinnumarkaði, samning sem markaði tímamót í samskiptum samtaka launafólks og atvinnurekenda.

Mikil verðbólga og óstöðugleiki höfðu einkennt íslenskt efnahagslíf í áratugi, enbreyting varð á með samningunum. Launahækkanir tóku mið af árangri í efnahagsmálum og verðbólga hjaðnaði og kaupmáttur fór að aukast svo um munaði. Stöðugleiki í efnahagsmálum hefur verið farsælli leið til að auka almennan kaupmátt fyrra tímabil mikilla umsaminna kauphækkana og verðbólgu.

Af þessu tilefni er rétt að rifja upp nokkrar staðreyndir sem teknar voru saman fyrir tæpu ári:

 

72% kaupmáttaraukning frá 1989

Ef litið er yfir lengra tímabil þá má lesa það úr gögnum Hagstofunnar að kaupmátturinn hafi vaxið um 72% frá 1989 til 2017. Þá voru meðallaunin 706 þúsund krónur á mánuði. Raunaukingin frá 1989 nema 300 þúsund króna á mánuði af þessum 706 þúsund kr. Þetta er mikil breyting á 28 árum. Lífskjörin hafa batnað sem þessu nemur. Það má vel færa rök fyrir því að yfir starfsævi manns sem spannar 40 ár megi vænta þess að verðmæti launanna sé í lok starfsævinnar tvöfalt meira en við upphaf. Það þýðir einfaldlega að launamaðurinn getur veitt sér meira sem því nemur hvort heldur það er í stærð og íburði húsnæðis, bíls eða ferðalaga.

Jöfnuður helst og lægst lágtekjuhlutfall

Meðaltal gefur góða mynd af heildarbreytingunni en ekki endilega af dreifingunni. Þess vegna þarf að skoða fleiri stærðir. Hagstofan greinir þetta og niðurstaðan er að hækkunin er nokkuð jöfn yfir tekjuhópana. Þannig hækka heildarlaun þeirra 25% sem hafa lægstu launin ívið meira en þeirra 25% sem hafa hæstu launin. Með öðrum orðum jöfnuðurinn hefur haldist og eilítið minnkað.

Gögn Hagstofunnar um þróun á dreifingu tekna sýna að jöfnuður teknanna 2018 er meiri en var 2010.  Þau gögn sýna líka að dreifing tekna árið 2018 er jafnari á Íslandi en Flestum öðrum Evrópuríkjum.

Þá eru til upplýsingar um lágtekjuhlutfall. Það er hlutfall fólk sem er undir lágtekjumörkum, en þau eru skilgreind sem 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. Það hefur lækkað á Íslandi. Var 9,8% árið 2010 í botni efnahagsáfallsins eftir hrunið, lækkaði í 7,9% árið 2014 og var 9,0% árið 2018. Þetta er langlægsta hlutfallið á Norðurlöndum. Hlutfallið fyrir Evrópusambandslöndin er 17,3% árið 2016.

Raunvextir lækka um 70%

Eitt sem ræður miklu um lífskjörin er verðið fyrir lánsfé. Raunvextir voru 10% á níunda áratugnum en eru nú komnir niður undir 3% og reyndar er hægt að fá lífeyrissjóðslán með vöxtum undir 3%. Þetta hefur bætt lífskjör launamannsins ótrúlega mikið á þessum 30 árum. Þeir sem þurftu að reyna 25% kaupmáttarskerðingu árið 1983 á eigin skinni muna enn eftir 10% raunvöxtunum, sem engin afsláttur var gefinn af.

Það sem helst á að hafa í huga er að kaupmáttur er almennt hár, dreifing tekna er með því besta í Evrópu og framfarir í lífskjörum síðustu 30 ár, frá tímamótasamningunum 1990, Þjóðarsáttinni, er einsdæmi í sögu þjóðarinnar. Vissulega er margt sem þarf að færa til betra vegar og dæmi um græðgi og óhóf valda ólgu í þjóðfélaginu. Því þarf að bregðast við en varast að spilla þeim árangri sem náðst hefur. Það gagnast engum og allra síst launafólki.

-k

DEILA