Ýtt á fiskeldi í Djúpinu og viðbótarkvóta

Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri í Bolungavík hitti Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra í gær og ræddi við hann um hagsmunamál Bolvíkinga og Vestfirðinga.

Jón Páll sagist hafa kynnt fyrir ráðherranum áhyggjur af því hversu dregist hefur að hægt verði að hefja fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Fyrir liggur burðarþolsmat á svæðinu fyrir 30.000 tonna framleiðslu. Miklu máli skipti fyrir svæðið að atvinnuuppbyggingin gæi farið að hefjast.

Þá ræddi bæjarstjórinn við ráðherrann um minnkandi línuívilnun og áhrif af því á sfjölda starfa við beitningu. Fyrir liggur skýrsla frá ágúst 2019 unnin af RR ráðgjöf ehf sem sýnir að um árabil hafi um 300 störf orðið til vegna línuveiða með handbeittri línu. Um 15 ára skeið frá 2004 skilaði  línuívilnunin árlega um 5- 6 þúsund tonna viðbótarafla vegna 20% ívilnunarinnar sem jók kvótann um 25%. Samkvæmt skýrslunni var um þriðjungur þess afla landað á Vestfjörðum og var Bolungavík sú höfn þar sem mestum afla var landað eða um 19% af heildinni.

Á síðustu tveimur árum hefur ívilnunaraflinn minnkað í 3500 tonn og margir línubátar hafa skipt úr handbeitningu yfir í vélabeitningu með þeim afleiðingum að störfum hefur fækkað. Jón Páll Hreinsson hefur reifað þær hugmyndir að byggðarlögin sem mest nýttu sér ívilnunina fái áfram viðbótaraflaheimildirnar.

Jón Páll sagði í samtali við Bæjarins besta að um kynningu hefði verið að ræða. Sjávarútvegsráðherra skipaði í  fyrra nefnd til þess að gera tillögur um ráðstöfun á þeim hluta aflaheimilda sem varið hefur verið til ýmissa aðgerða, svo sem byggðakvóta, línuívilnun og uppbóta. Um væri að ræða 5,3% af heildarúthlutun hvers árs. Vonast væri eftir því að nenfdin skilaði af sér á næstunni.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!