Votlendissjóðurinn: færir land til fyrra horfs

Votlendissjóðurinn vinnur að því að endurheimta framræst votlendi en endurheimt votlendis er skjótvirkasta aðferðin til að ná árangri í loftlagsmálum hérlendis. Talið er að um 2/3 af losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi komi frá framræstu votlendi.

 

Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og fjármagnaður af samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum sem vilja leggja sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar. Hundruð hektara votlendis hafa þegar verið endurheimtir á vegum Votlendissjóðsins sem jafngildir því að stöðva losun þúsunda tonna koldíoxíðs út í andrúmsloftið. Jafnframt styrkir þessi leið líffræðilega fjölbreytni. Þannig eflist gróður og fuglalíf og jákvæð áhrif geta orðið á vatnsbúskap í veiðiám þar sem áhrifanna gætir.

Þrjár leiðir eru til að leggja Votlendissjóði lið. Sú fyrsta er í formi frjálsra fjárframlaga þeirra sem vilja kolefnisjafna ferðlög, heimilishald eða minni starfsemi eða hreinlega láta gott af sér leiða. Þá geta fyrirtæki sem kaupa endurheimt vottonn fært sér þau til tekna í kolefnisbókhaldi sínu og í þriðja lagi eru það landeigendur sem koma til samstarfs við Votlendissjóð um endurheimt á eigin jörðum.

Frá og með 1. Janúar  2020 mun verð á hverju vottonni verða  kr. 2.000,-. Samfara þessum breytingum mun sjóðurinn bjóða landeigendum að taka við ávinningi endurheimtarinnar eftir átta ár frá framkvæmd. Geta þeir þá nýtt hann sjálfir til kolefnisjöfnunar eða selt hann inn á grænan markað, sem líklegt er að muni myndast hér eins og gerst hefur í Evrópu.

Helstu breytingar á framlagsforsendum sjóðsins eru þær að sjóðurinn býður nú endurheimt tonn á 2.000,- krónur og selur staðfesta stöðvun í átta í ár stað eins árs eins og fyrra módel var byggt á. Stærsta breytingin er þó er viðkemur landeigendum sem koma til samstarfs við sjóðinn en þegar sjóðurinn hefur nýtt þessi átta ár til að fjármagna framkvæmdirnar fá landeigendur stöðvunina til ráðstöfunar.  Á fyrstu sex mánuðum 2020 endurheimtir sjóðurinn á þriðja tug jarða í samvinnu við Landgræðsluna. Ný heimasíða er í vinnslu og alþjóðlegar vottanir eru í skoðun.

DEILA