Vestfirðir: slæm staða í raforkumálum

Gleðilegt ár kæru landsmenn. Reglulega erum við minnt á vanmátt okkar gegn náttúruöflunum, nú síðast í desember. Vond veður eru ekki nýlunda hér á Fróni og þó vanmáttur okkar sé mikill, leitar sú spurning að mér hvers vegna er staðan í raforku og  samgöngumálum er ekki betri en raunin er?

Á árunum í kring um 1980 starfaði undirritaður sem rafvirki víða um Vesturland og Snæfellsnes meðal annars við lagningu byggðarlínunnar. Lagning hennar var langt komin 1980 en hún var tekin í notkun 1985.

Á þessum tíma var almenn  bjartsýni ríkjandi með framtíð raforkumála á landinu öllu höfðu menn þá trú að í beinu framhaldi yrði haldið áfram við að tryggja afhendingaröryggi fyrir Ísland allt. Fastlega var gert ráð fyrir að þriggja fasa rafmagn yrði lagt um sveitir landsins.

Því miður er staðan ekki þannig í dag. Afhendingaröryggi er því miður bágborið og þá sérstaklega á Vestfjörðum og Norðurlandi. Rafmagnleysið eftir veðurhaminn fyrir jól reyndi mjög á íbúa landsins, suma vissulega meira en aðra. Það ástand varði allt of lengi, því er ekki hægt að neita. Þrátt fyrir nýja tækni í fjarskiptum urðu svæði sambandslaus og upplýsingar um ástand og stöðu mála voru víða ónógar. Þetta ástand er vissulega mikil afturför frá fyrri tíð þegar síminn var vírtengdur en sennilega var ekki hægt að allt fyrir. Fjarskipti lágu víða niðri og útvarpið sem á að vera öryggistæki datt víða út. Listinn yfir allt sem fór úrskeiðis vegna rafmagnsleysisins er því miður of langur. Við erum í dag svo háð því að afhendingaröryggi raforku sé í lagi að staðan er óboðleg.  Enn hefur ekki fundist sú tækni sem getur beislað náttúruna og er það áminning um afl hennar og smæð okkar.

Hringvegurinn svokallaði eða þjóðvegur 1 var kláraður 1974. Hann varð ekki allur á bundinn slitlagi fyrr en á síðasta ári þegar vegur um Berufjörð á Austurlandi var malbikaður. Síðustu ár hefur orðið gífurleg fjölgun á ferðamönnum en þeir voru um 2.5 miljón árið 2018.  Flestir ferðamenn fara út á þjóðvegi landsins. Strandsiglingum ríkisins var hætt fyrir einhverjum árum og þá jukust þungaflutningar á þjóðvegum landsins gríðarlega. Vegakerfið á enn langt í land með að bera þessa aukningu umferðar svo ásættanlegt sé. Í norðvestur kjördæmi eru hvað lengstu malarvegirnir, í Húnavatnssýslum og Dalasýslu yfir 70% í hvorri sýslu fyrir sig. Svipuð staða er á vegum í Borgarfirði og á Vesturlandi. Álag á malarvegum hefur aukist það mikið vegna aukinnar umferðar að lámarks viðhaldi er ekki sinnt enda er of lítið fjármagn sett í málaflokkinn.

Ástandið á Vestfjörðum sem orsakast meðal annars af vandræðaganginum með vegagerð í Gufudalssveit  um Teigskóg hefur verið ein sorgarsaga síðan 2004 eða rúm fimmtán ár. Slíkt er óboðlegt.  Loksins er þó núna búið að sækja þar um framkvæmdaleyfi og vonir standa til að hægt verði að hefja framkvæmdir í vor.

Þungaflutningar á vegum eru meðal annars tilkomnir vegna fiskeldis á Vestfjörðum. Gríðarleg uppbygging atvinnu og fólksfjölgun á sunnanverðum fjörðunum er gleðiefni, en skorti á innviðaþjónustu og húsnæði sem blasir við, þarf að bregðast við strax.

Raforka á Vestfjörðum og framboð hennar þarf að vera í takt við þá atvinnuuppbyggingu sem þar er og er í bígerð. Undirbúningur við væntanlega Hvalárvirkjun er í gangi en þar togast á sjónarmið þeirra sem kalla eftir raforku sem nauðsynleg er til viðhalds og uppbyggingar samfélagsins á Vestfjörðum og þeirra sem vilja ósnortna náttúru. Eitt er víst að Vestfirðingar geta ekki gert áætlanir um atvinnuuppbyggingu nema að raforka sé trygg.

Ungt fólk hefur áhuga á að flytjast út á land en þá þarf að vera næg atvinna og góðar samgöngur, bæði í lofti og á landi. Næg raforka þarf að vera til staðar sem víðast til að það hindri ekki áform atvinnuuppbyggingar.

Stefna Miðflokksins er skýr er varðar uppbyggingu á landsbyggðinni jafnt sem annars staðar. Stefnan undir merkinu ,,Ísland allt“  leggur áherslu að einn ráðherra hafi á sinni könnu að allar byggðir landsins og að íbúar fái þá þjónustu sem nauðsynleg er til búsetu, lífsgæða og til uppbyggingar mannlífs í sátt við náttúruna.

 

Sigurður Páll Jónsson, alþm.

DEILA