Vestfirðir: 7,5 milljarðar króna í ofanflóðavarnir

Að sögn Halldórs Halldórssonar, stjórnarmanns í Ofanflóðasjóðði er ekki enn byrjað á ofanflóðavörnum í fimm byggðarlögum á Vestfjörðum. Fyrir liggja tillögur að vörnum og fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir eru samtals upp á 7,5 milljarð króna.

Langstærstu framkvæmdirnar verða á Patreksfirði. Þar er gert ráð fyrir vörum á tveimur svæðum. Annars vegar eru Urðir, Hólar og Mýrar og hins vegar Sigtún og Stekkagil. Samtals er talið að ofanflóðavarnirnar kosti 3,6 milljarða króna.

Á Bíldudal þarf að gera varnargarða fyrir 1,1 milljarð króna. Þá er þörf á framkvæmdum á Tálknafirði fyrir 400 milljónir króna og svipaða upphæð í Bolungavík.

Loks þarf varnargarða fyrir byggðina í Hnífsdal. Kostnaður er áætlaður 2 milljarðar króna.

Haldór sagði í samtali við Bæjarins besta að í mörg ár hefði fjárhag sjóðsins verið svo fyrirkomið að ekki hafi verið hægt að byrja á nýjum stórum verkefnum. Halldór er mjög gagnrýninn á þessar ákvarðanir Alþingis og ríkisstjórnar. Hann segir að tekjustofninn til ofanfklóðavarna hafi skilað mun hærri fjárhæðum er varið hefur verið til varna. Mörg síðustu ár , alveg frá því fyrir hrun viðskiptabankanna, hefur aðeins hluti teknanna farið til framkvæmda við ofanflóðavarnir.

Halldóri telst til að það ættu að vera 23 milljarðar króna til þessara verkefna. „Það bíða verkefni á 8 stöðum sem samtals kosta um 21 milljarð króna“ segir Halldór og leggur áherslu á að búið sé að afla tekna fyrir þeim.

Í maí á síðastliðnu ári stóð Halldór Halldórsson að því ásamt bæjarstjórum og embættismönnum að senda skriflega áskorun til ríkisstjórnarinnar.

Í áskoruninni segir m.a.:

„Ljóst er að markmið um að varnir fyrir hættulegustu svæði landsins verði komnar upp fyrir árið 2020 mun ekki nást. Það stefnir reyndar í að þessu markmiði verði ekki náð fyrr en undir miðja öldina miðað við fjárheimildir til þessara verkefna undanfarin ár en þær hafa í mörg ár verið mun minni en Ofanflóðasjóður hefur burði til miðað við tekjur sjóðsins og fjármuni sem í hann hafa safnast á umliðnum árum. Slík frestun býður heim hættu á mannskæðum slysum í þéttbýli sem erfitt er að sætta sig við þar sem sjóðurinn hefur burði til þess að ljúka uppbyggingu varnanna miklu fyrr.

Bréfinu lýkur með þessum orðum:

„Við undirrituð, sem öll höfum komið að hættumati og uppbyggingu varna gegn snjóflóðum og skriðuföllum hér á landi á undanförnum árum og áratugum, viljum skora á stjórnvöld að ljúka sem fyrst uppbyggingu ofanflóðavarna. Fjárhagslega og tæknilega virðist raunhæft að ljúka þeim framkvæmdum sem eftir standa fyrir árið 2030 ef fljótlega verður hafist handa við framkvæmdir, sem undirbúnar hafa verið. Samtímis yrði unnið að undirbúningi framkvæmda
sem skemmra eru á veg komnar í samvinnu sveitarfélaganna sem um ræðir og annarra stjórnvalda. Þetta er verðugt markmið nú þegar tæpur aldarfjórðungur er liðinn frá hinum hörmulegu slysum í Súðavík og á Flateyri árið 1995. Ekki er viðunandi að meira en hálf öld líði frá þessum slysum þar til fullnægjandi varnir hafa verið reistar fyrir byggð á mestu snjóflóðahættusvæðum landsins þar sem slíkur hægagangur býður heim hættu á mannskæðum slysum í þéttbýli.“

Fjárlög yfirstandandi árs bera ekki með sér að orðið hafi verið við áskoruninni.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!