Þriðja árið í röð – ekkert banaslys á sjó

Ekkert banaslys varð til sjós við Ísland í fyrra. Þetta er þriðja árið í röð sem enginn ferst við störf um borð í íslensku fiskiskipi. Síðasta banaslys til sjós varð árið 2016, þegar tveir menn fórust. Það var fyrst árið 2008 sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Það var einnig svo árið 2011 og 2014 og nú hafa þrjú ár bæst við, 2017, 2018 og 2019. Þetta er mikið fagnaðarefni, enda krafan um að allir komi heilir heim, bæði sjálfsögð og eðlileg.

Þegar litið er um öxl sést að mikil breyting hefur orðið á öryggi sjómanna. Steinar J. Lúðvíksson rithöfundur hefur rakið sögur af baráttu Íslendinga við Ægi á 20. öldinni í ritröðinni, „Þrautgóðir á raunastund“. Hann hefur meðal annars tekið saman fjölda þeirra sem fórust í sjósköðum við Ísland á liðinni öld. Þeir eru á fimmta þúsundið. Bara árið 1959 fórust 59 sjómenn og á árunum 1966 til 1970 fórust alls 101 sjómaður.

Nokkrar ástæður má nefna sem leitt hafa til aukins öryggis sjómanna. Slysavarnaskóli sjómanna var settur á stofn 1985, aðgerðir stjórnvalda með áætlum um öryggi sjófarenda var sett á laggirnar árið 2001 og betri og öruggari skip í íslenska flotanum. Og svo verður að nefna fyrirkomulag veiða eftir upptöku aflamarkskerfisins. Eftir upptöku þess gátu menn valið hvenær þeir sóttu sjóinn.

DEILA