Þrengt að grásleppuveiðum – vantraust á sjávarútvegsráðherra

Sjávarútvegsráðherra hefur birt drög að nýrri reglugerð um hrognkelsaveiðar sem gilda á fyrir fyrir 2020.

Í kynningu á samráðsgátt segir að lagðar séu til talsverðar breytingar m.a. til að sporna við meðafla. „Helstu breytingarnar eru afnám svæðaskiptingar (að undanskildum Breiðarfirði), lenging veiðitímabils, vitjunartími styttur, fækkun neta, hert á kröfum um að bátar séu með aflaheimildir fyrir áætluðum meðafla, fellt út ákvæði um að skila veiðiskýrslu og lagt til að Fiskistofa geti sett eftirlitsmann um borð á kostnað útgerðar ef meðafli er óeðlilegur.“

Grásleppukarlar eru gagnrýnir á boðaðar breytingar og segja svo að þeim þrengt að vandséð verður hvernig þeir eigi að geta stundað veiðarnar með arðbærum hætti.

Halldór Logi Friðgeirsson, Dragsnesi gagnrýnir að boðað sé að netum verði fækkað um helming sem geri það að verkum að aðeins einn maður verði á bát í stað tveggja. Þá gagnrýnir hann að ákveða eigi fyrirfram hvenær veiðar hefjist, en hingað til sé það  veður og fiskigengd sem hafi ráðið því. Þá gegnrýnir Halldór Logi ákvæði í drögunum þar sem ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi leyfi til grásleppuveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra. telur hann að slíkt ákvæði gefi ráðherra alltof víðtækt vald.

Landssamband smábátaeigenda er einnig gagnrýnið á reglugerðardrögin og bendir á að það hafi ekki átt aðild að vinnuhóp né vitað af starfi hans sem settur var á laggir til að  að koma með tillögur um hvernig hægt væri að draga úr meðafla við grásleppuveiðar, einkum spendýra og fugla.

Í nokkrum umsögnum sem þegar hafa borist um reglugerðardrögin segir að þau sé svo slæm að kvótasetning grásleppu sé jafnvel skárri niðurstaða.

Í haust kynnti ráðherra hugmyndir um frumvarp um kvótastningu grásleppuveiða en  hefur hætt við að leggja það fram og þess í stað kynnt drög að nýrri reglugerð.

Umsagnarfrestur til athugasemda við reglugerðardrögin er til og með 15. janúar 2020.

Lýsa vanstrausti á ráðherra

Stjórn Sæljóns félags smábátaeigenda á Akranesi mótmælir harðlega þeim breytingum sem fram koma í drögum að reglugerð um hrognkelsaveiðar á árinu 2020 sem birt eru á samráðsgátt stjórnvalda. Breytingar sem koma fram í þessum drögum eru svo íþyngjandi að þær geta leitt til þess að grásleppuveiðar í Faxaflóa og viðar leggjast af.

Í ályktun Sæljóns segir. „Þetta eru ekkert annað  enn bein aðför að smábátasjómennsku á Íslandi.  Sú síðasta í langri röð aðgerða og tillagna frá sjávar-útvegsráðherra og opinberra aðila til þess að veikja smábáta-útgerð á Íslandi.  Við lítum á þetta útspil sem hermdaraðgerð að hálfu Kristjáns Þórs Júlíussonar vegna andstöðu okkar við kvótasetningu á grásleppu. Við höfum lagt tillögur til lausnar á vandamálum varðandi meðafla við grásleppu-veiðar, – að gefa mönnum kost á að gera hlé á veiðum án dagaskerðingar ef um óeðlilegan meðafla er að ræða. Ráðherra hefur ítrekað hafnað þeim tillögum.“
Ályktuninni lýkur með því að lýst er vantrausti á ráðherrann:
„Við í stjórn Sæljóns félags smábátaeigenda á Akranesi lýsum hér með yfir vantrausti á sjávarútvegsráðherra Íslands Kristján Þór Júlíusson og skorum á LS að gera slíkt hið sama.“
Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!