Suðureyri : 100 manns á íbúafundi

Frá fundinum í gærkvöldi á Suðureyri. Myndir: Ævar Einarsson.

Um 100 manns voru íbúafundinum á Suðureyri í gærkvöldi. Þar fóru sérfræðingar Veðurstofunnar yfir gögn sín um flóðin á Flateyri og úr  Norðureyrargilinu.

Flóðið féll  kl 23:05 úr Norðureyrargilinu. þá var rétt um það bil háflóð og stórstreymt. Flóðbylgjan skall á sjóvarnargarðinum á Suðureyri og kastaðist við það hátt í loft upp. Við það kastaðist krapablandaður sjór yfir þökin á nærliggjandi húsum en meginflóðbylgjan var lægri. Krapinn var hnédjúpur og sums staðar upp  á mið læri á götum og við hús innan við varnargarðinn.

Ævar Einarsson sagði í samtali við Bæjarins besta að flóðið hefði ekki farið í höfnina. Hann sagði að fundurinn hefði verið fróðlegur.

Þóra Þórðardóttir sagði frá sinni reynslu af sjóflóðum á ytri mölum og hvernig hún brýndi fyrir börnum sínum að varast það að ganga inn götu og alls ekki fjöruna þegar mikill snjór var í norðurhlíðinni.

DEILA